Á vefnum fotbolti.net er greint frá því að Gunnar Heiðar Þorvaldsson muni stýra liði ÍBV gegn Fylki á þriðjudag þegar liðin mætast í 9. umferð Pepsi Max-deild kvenna. Gunnar Heiðar er fyrrum leikmaður karlaliðsins og er í dag þjálfari KFS.

Leit stendur yfir af þjálfara hjá kvennaliði ÍBV en Andri Ólafsson og Birkir Hlynsson létu af störfum í vikunni.

Einnig var rætt við Harald Pálsson, framkvæmdastjóra ÍBV;

„Gunnar Heiðar stýrir liðinu á þriðjudag og það er það er svona það eina sem hefur verið ákveðið. Það er leit í gangi að nýjum þjálfara.”

„Hann og Jeffsy (Ian Jeffs) hafa verið að stýra æfingum þannig þetta er í góðum tímabundnum höndum. Við búum svo vel í Eyjum að vera með reynsluríka þjálfara út um allt.”

Er búist við því að nýr þjálfari verði tilkynntur í næstu viku?

„Það fer eftir hvernig samningar ganga við þá sem rætt hefur verið við. Ráðið er að skoða kosti og galla við hvern umsækjanda, launakröfur og annað. Það er ánægjulegt hvað það eru margir sem sækjast eftir þessu starfi.”

Það er sem sagt fjöldi sem hefur áhuga á þessu starfi?

„Já, það er góður fjöldi sem hefur sýnt þessu starfi áhuga. Enda erum við með hörkulið og ætlum okkur að gera góða hluti hérna í framtíðinni. Við erum að byggja upp til framtíðar og við verðum eitt af stærri liðunum í kvennaboltanum eftir nokkur ár,” sagði Haraldur.