Á 349. fundi umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyja, sem haldinn var þann 28. júní s.l., var síðustu lausu lóðunum í Búhamri úthlutað. Teknar voru fyrir fjórar umsóknir um lausar lóðir frá fyrirtækinu 13. braut ehf. Var það lóðunum Búhamar 22, 54, 56 og 80 sem var úthlutað að þessu sinni og eru það síðustu lausu lóðirnar við götuna. Á undanförnum tveimur árum hefur öllum þeim lausum lóðum verið úthlutað sem lengi hafa staðið óbyggðar. Uppbygging vestast í hverfinu er þegar hafin.

Hverfið og göturnar, sem draga nöfn sín af Ofanleitishamrinum, hafa byggst hægfara upp allt frá Heimaeyjargosinu 1973. Hverfið hafði þegar verið hannað á árunum áður en byggðist hratt fyrstu árin samhliða uppbyggingu bæjarins að gosi loknu. Nú sætir þó til tíðinda þegar brátt verða allar lóðir í Búhamrinum fullbyggðar. Einnig ber að nefna að nýlega voru ný raðhús á auðum lóðum í Foldahrauninu tekin í notkun.