Drangavík VE og Brynjólfur VE sögðu skilið við humarinn um mánaðarmótin og bjuggu sig undir nýjan kafla í veiðiskap. Áhafnirnar skiptu um veiðarfæri og lagt var úr höfn á áliðnum sunnudegi í lok goslokahátíðar til að sækja fisk til vinnslu; þorsk, ýsu, karfa, löngu, skötusel og annað það sem hafnar í trollinu. Ufsi er samt efstur á óskalistanum því mikið er eftir af ufsakvótanum og áramótin eru við sjóndeildarhringinn, það er að segja áramót fiskveiðistjórnunarinnar. Í þeim efnum er gamlárskvöld 31. ágúst en nýársdagur rennur upp 1. september.

Að morgni laugardags um nýliðna helgi hamaðist áhöfnin á Drangavík við að gera klárt. Menn léttklæddir og léttir í lundu í sumarblíðunni. Sumir þeir yngri ögn þreytulegir eftir goslokaskrall liðinnar nætur en unnu þann eftirstöðvahroll fljótt úr sér. Morgunkaffi hjá Villí kokki hjálpaði til að koma mannskapnum almennilega í gang.

Sverrir Haraldsson, sviðsstjóri botnfiskssviðs Vinnslustöðvarinnar, var á vappi á bryggjunni, fylgdist með og tók menn tali. Hann gerir upp nýafstaðna humarvertíð, sem enn er ekki nema svipur hjá sjón ef miðað er við það sem taldist eðlilegt áður fyrr.

„Drangavík og Brynjólfur byrjuðu á humri í apríl og veiðin var sæmileg til að byrja með en minnkaði svo upp úr miðjum maí. Það er reyndar eftir bókinni því þegar þörungablómi er kominn á skrið snemmsumars dimmir í sjónum og það hefur áhrif á hegðun humarsins og þar með veiðarnar.

Áður fyrr vorum við að fá 200 til 300 tonn af heilum humri úr sjó á vertíð en nú eru einungis leyfðar mjög takmarkaðar veiðar til að fylgjast með stofninum, um 30 tonn af heilum humri eða liðlega 9 tonn mælt í humarhölum. Kvótinn er mældur í humarhölum.

Við sáum meira af smáum humri í ár en í fyrra og það eru vonandi batamerki fyrir stofninn en óljós samt. Veiðarnar voru meira á austursvæðinu nú en í fyrra, það er að segja í Breiðamerkurdýpi, Hornafjarðardýpi og í Skeiðarárdýpi. Bátarnir voru líka við Eldey en hér við Eyjar fannst enginn humar frekar en undanfarin ár. Heimamiðin voru gjöful áður en nú er þar ekkert að frétta.

Vinnslustöðin reyndi fyrir sér með humarveiðar í gildrur í Breiðafirði og í Jökuldýpi í fyrra og þær gengu vonum framar. Klemens Sigurðsson, skipstjóri á Ingu P SH-423, stjórnaði þeirri tilraunastarfsemi á okkar vegum en Hjörtur bróðir hans er tekinn við verkefninu núna. Spennandi verður að fylgjast með hverju gildruveiðarnar skila í júlí og ágúst.

Menn velta því eðlilega alltaf fyrir sér hver skýringin sé á því að svo fór sem fór með humarstofninn. Engin vísindaleg svör eru við þeirri spurningu en ýmsar getgátur, meðal annars er bent á makrílinn. Hann gekk í stórum stíl inn í lögsöguna og alla leið á grunninn, á sama tíma og humarlirfur voru að klekjast úr hrognum, ákjósanlegt æti fyrir svangan makríl í sjónum.

Makríls hefur í seinni tíð ekki orðið vart á humarslóðum í líkingu við það sem gerðist áður og verður fróðlegt að sjá hvort  humarstofninn braggast fyrir vikið. Það gerist þá hægt. Vöktunarveiðarnar eru einmitt nauðsynlegar til að fylgjast með ástandi stofnsins og mögulegum breytingum ár frá ári.“