Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, er ein þeirra sem bættist við hóp gagnrýnenda hlaðvarpsins “Eldur og Brennisteinn” í gær. Eyjafréttir höfðu greint frá því að Elliði Vignisson, fyrrverandi bæjarstjóri sveitarfélagsins, hefði gagnrýnt ummæli í þættinum harkalega í færslu sinni sem bar titilinn “Nú er mál að linni!”.

Ástæða gagnrýninnar voru ljót orð sem þáttastjórnendur hlaðvarpsins, Eldur og Brennisteinn, þeir Snæbjörn Brynjarsson, fyrrverandi varaþingmaður Pírata, og Heiðar Sumarliðason létu falla í garð Vestmannaeyinga. Í þættinum komu meðal annars fram ummælin: „Það er eins og þetta sé einhver íþrótt innfæddra [Eyjamanna] að nauðga konum sem koma frá meginlandinu.“ Þar var Herjólfsdalur einnig uppnefndur “nauðgaradalur”.

Mikil umræða braust út á frétta- og samfélagsmiðlum í kjölfarið. Helstu fjölmiðlar landsins fjölluðu meðal annars um skrif og gagnrýni Elliða sem hlaut mikla eftirtekt og lesningu. Meðal gagnrýnenda var einnig eyja- og íþróttafréttakonan Svava Kristín Grétarsdóttir sem nýtti samfélagsmiðilinn Twitter.

Eins og fyrr segir ritaði svo Íris Róbertsdóttir í framhaldinu færslu á Facebook síðu sinni. Þar segist hún meðal annars hafa haft samband við Vísi.is sem hýsti umræddan þátt á vefnum sínum. “Í þættinum „Eldur og Brennisteinn“ var farið yfir öll velsæmismörk gagnvart samfélagi okkar hér í Eyjum og það stimplað sem einhverskonar griðastaður fyrir kynferðisbrotamenn.” Segir hún og bætir við að athugasemdum sínum hafi verið vel tekið og bendir á að þátturinn sé nú ekki lengur aðgengilegur, en þátturinn var tekinn af vefsvæði Vísis í gær. Einnig hafa þáttastjórnendur beðist afsökunar.

Íris ritar svo: “Það er eðlilegt að okkur svíði þegar Þjóðhátíðin okkar og samfélagið allt verður fyrir illu, ósanngjörnu og jafnvel meinfýsnu umtali af þessu tagi. En við látum það ekki beygja okkur heldur styrkja. Tökum saman höndum, færum umræðuna á hærra plan, berjumst saman af öllu afli gegn ofbeldi og pössum uppá hvert annað!”

Seinnipartinn í gær birtu þáttastjórnendurnir færslu á Facebook undir nafni þáttarins, Eldur og Brennisteinn, þar sem þeir meðal annars tilkynna að þeir hafi ákveðið að nema staðar við þátt sinn. Þeir segjast einlæglega leiðir og vonsviknir með eigin framgöngu. Eftir að hafa rætt við fólk í Vestmannaeyjum og heyrt þeirra upplifun vilji þeir með þessu reyna ítreka fyrri afsökunarbeiðni. “Við fórum gjörsamlega yfir strikið og við skömmumst okkar fyrir framgöngu okkar í þættinum. Við viljum biðja alla íbúa Vestmanneyja auðmjúklega afsökunar.” stendur í færslunni.

“Við höfum ákveðið að láta staðar numið með Eld og brennistein. Við erum einlæglega leiðir yfir þessu og vonsviknir með eigin framgöngu. Við vonum innilega að Vestmannaeyingar sjái að okkur þyki þetta í raunverulega leitt og að við viljum axla ábyrgð á þessum mistökum okkar.” Segja þeir að lokum.

Færsla Írisar Róbertsdóttur:

Færsla Elds og Brennisteins: