Ólafur Snorrason, framkvæmdastjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs kom á fund bæjarráðs í hádeginu í dag til þess að greina frá þeirri vinnu sem átt hefur sér stað um greiningu á nauðsyn þess að koma fyrir nýrri neðansjávarvatnsleiðslu milli meginlandsins og Vestmannaeyja. Til þess að bæta öryggi heimila og fyrirtækja er nauðsynlegt að leggja nýja vatnslögn milli lands og Vestmannaeyja.

Í niðurstöðu bæjarráðs um málið kemur fram að bæjarráð felur bæjarstjóra og framkvæmdastjóra umhverfis- og framkvæmdasviðs að óska eftir formlegum viðræðum við sveitarstjórnarráðherra sem allra fyrst, um aðkomu ríkisins að lagningu nýrrar neðansjávarvatnsleiðslu til Vestmannaeyja. Jafnframt að óska eftir fundi með fulltrúum HS veitna um aðkomu þeirra. Með nýrri varavatnslögn er þjónusta og öryggi við atvinnulíf og íbúa tryggt, komi upp bilun í núverandi vatnslögn.