Leikur Þór/KA og ÍBV endaði með jafntefli, 1-1, á SaltPay vellinum á Akureyri kl. 14:00 í dag.

Um er að ræða leik í 10. umferð Pepsi Max-deildar kvenna. Liðin voru nokkuð jöfn fyrir leik og sátu þau í 6. og 7. sæti deildarinnar. Lið þessi mættust síðast í 1. umferð deildarinnar þann 4. maí en fór þá Þór/KA með sigur úr bítum.

Eins og Eyjafréttir höfðu greint frá í gær var Ian Jeffs þjálfari liðs ÍBV og stillti hann upp óbreyttu byrjunarliði frá 2-1 sigri ÍBV gegn Fylki úr síðustu umferð.

Leikmaður ÍBV, Delaney Baie Pridham, hlaut gult spjald á 35 mínútu og var leikurinn nokkuð jafn framan af. Staðan 0-0 þegar fyrri hálfleikur var svo flautaður af.

Í upphafi seinni hálfleiks skoraði Colleen Kennedy fyrir Þór/KA og stuttu síðar kom seinna gula spjald leiksins í skaut Sögu Lífar Sigurðardóttur leikmanns Þór/KA.

Hanna Kallmaier jafnaði leikinn fyrir ÍBV með marki á 65 mínútu eftir stoðsendingu frá Þóru Björg Stefánsdóttur.

Næsti leikur kvennaliðs ÍBV verður gegn Breiðablik á Kópavogsvelli í 11. umferð þann 20. júlí kl. 20:00.

Ritstj