Á 264. fundi framkvæmda- og hafnarráðs Vestmannaeyja þann 22. júní síðastliðinn var tekið fyrir erindi um breytta notkun hina svokölluðu “Bása”.

Var það fyrirtækið 13. Braut ehf. sem sótti um að breyta notkun á nyrsta hluta húsnæðis að Básaskersbryggju 3, Básahússins. Um var að ræða ósk um breytingu fyrir íbúðir á 2. og 3. hæð hússins sem snúa í átt að höfninni. Fyrirhuguð notkun beggja hæða er ætluð undir orlofsíbúðir. Ráðið var hlynnt því að heimila orlofsíbúðirnar en erindinu hafði verið vísað til umsagna af umhverfis- og skipulagsráði sem jafnan fer með mál tengdum húsbyggingum og skipulagi. Hafnarráð lagði þó áherslu á í bókun sinni að húsið að Básaskersbryggju 3 væri enn innan skilgreinds hafnarsvæðis skv. aðalskipulagi Vestmannaeyjabæjar. Þar skal hafnarstarfsemi hafa forgang á aðra starfsemi svæðisins. Fram kemur í bókun: “Einnig að umsækjandi geri sér grein fyrir því að starfsemi á hafnarsvæði er þess eðlis að reikna má með truflun hvenær sem er sólarhringsins.”

Á gunni umsagnar framkvæmda- og hafnarráðs samþykkti umhverfis- og skipulagsráð umsókn um breytta notkun húss fyrir orlofsíbúðir, á fundi sínum 28. júní.

Húsið hefur þegar tekið nokkrum breytingum. Það hefur meðal annars verið málað og á norðurgafli þess hefur svölum verið komið fyrir. Á hvorri hæð fyrir sig verður ein íbúð og á jarðhæð skilgreind hjólageymsla, samkvæmt teikningum, þar sem um tíma var verslunin Icewear til húsa. Efri hæðir hýstu veislusal.