Áform um landeldi í Vestmannaeyjum eru langt á veg komin og stefnt að því að fyrstu seiðin fari út vorið 2023 og slátrun getið hafist í byrjun árs 2025. Innan fárra ára er stefnt að því að hefja fiskeldi á landi í Vestmannaeyjum. Hallgrímur Steinsson, framkvæmdastjóri félagsins Sjálfbært fiskeldi í Eyjum, og Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri hafa nú þegar undirritað samkomulag þess efnis.

Ætlunin er að reisa laxeldisstöð í Viðlagafjöru og framleiða þar 5.300 tonn árlega til að byrja með. Reiknað er með því að 14-18 bein störf skapist, auk afleiddra starfa af ýmsu tagi.

Lárus Ásgeirsson, stjórnarformaður félagsins, segir í samtali við fiskifréttir þetta hafa verið í vinnslu í talsverðan tíma, enda henti Vestmannaeyjar að mörgu leyti vel til fiskeldis.

„Sjávarhiti er mjög hagstæður hér, einn sá hagstæðasti við Ísland. Hér er mikil þekking og hefð fyrir sjávarvinnslu og flutningum og sölu á fiski. Tengingar við Vestmannaeyjar, skipaflutningar og annað, eru mjög góðar, sérstaklega til Evrópu. Þannig að þetta liggur mjög vel við og menn hafa hér skoðað möguleikana á fiskeldi mjög lengi. En út af mikilli ölduhæð og öðru slíku myndi hefðbundið strandeldi aldrei takast út af þessum náttúruöflum.“

Nánar er fjallað um málið og rætt við Lárus á vef fiskifrétta.