„Það er varla hægt að tala um humarvertíð vegna þess að við erum að veiða þennan humar fremur í vísindaskyni en atvinnuskyni. Þetta snýst fyrst og fremst um það að yfirgefa ekki miðin heldur að reyna að veiða þetta litla magn sem má veiða og fara þá vítt og breitt um miðin. Það er afar mikilvægt að vakta miðin en fara um leið í einu og öllu eftir veiðiráðgjöf,“ segir Sverrir Haraldsson, sviðsstjóri botnfisksviðs hjá Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum í samtali við Fiskifréttir.

Sverrir segir þetta mikilvægt vegna þess að Hafrannsóknastofnun nái ekki að vakta miðin eins og útgerðir með veiðum. Í því felist engin gagnrýni á Hafró. Þar á bæ séu vísindin en ekki mannskapur eða skip til þess að vakta miðin.

Auk Vinnslustöðvarinnar hefur Skinney-Þinganes á Hornafirði, útgerð Sigurðar Ólafssonar SF og Rammi í Þorlákshöfn gert út á humarveiðar og heildarkvótinn í sögulegu lágmarki,  53 tonn af humarhölum eða 172 tonn af heilum humri. Búið er að veiða um 30 tonn af hölum það sem af er ári og er því enn 37% af útgefnum kvóta óveiddur. Bátar frá Hornafirði og Þorlákshöfn eru enn að og sömuleiðis eru stundaðar tilraunaveiðar í gildrur í Breiðafirði á bátnum Ingu P SH á vegum Vinnslustöðvarinnar.

Hjörtur Sigurðsson, skipstjóri á Ingu P, segir litla sem enga veiði núna yfir bjartasta tímann í gildrur. Ágætlega hafi veiðst síðasta vetur en vonir standa til þess að þetta kvikni á ný. Hjörtur var ekki frá því að ástæðan fyrir lítilli veiði núna sé of mikið framboð af æti í sjónum þannig að humarinn er ekkert að bera sig eftir gildrufæðunni. 360 gildrur eru í sjó og síðast þegar þær voru teknar upp voru ekki nema 30 kíló í þeim af heilum humri en þegar best lét voru að koma um 120 kíló í þær.

Meira um smáan humar
„Ljósið í myrkrinu er sennilega það að við erum að sjá meira af smáum humri en áður. Það viljum við túlka á jákvæðan hátt og að þar sé einhver nýliðun á ferðinni þótt ekki sé það í miklu magni. Við véfengjum ekki það sem Hafró hefur sagt um nýliðun humars. Það er ljóst að stofninn hefur hrunið vegna lélegrar nýliðunar,“ segir Sverrir.

Það sem sé mest um vert núna sé að halda áfram að vakta miðin með veiðum sem menn telja óhætt að stunda miðað við aðstæður og fylgjast með hvort einhverjar breytingar verði á næstu tveimur til þremur árum. Talsverðar breytingar hafi orðið í hafinu suður af landinu og í kringum Vestmannaeyjar að undanförnu. Mikill afkomubrestur varð hjá ýmsum sílastofnum, eins og t.d. sandsíli sem aftur leiddi til afkomubrests lundastofnsins, einmitt um það leyti sem makríllinn gekk sem mest inn í íslenska lögsögu. Nú verði menn aftur á móti varir við umtalsvert meira af síli í sjónum.

„Þegar jafn stór stofn og makrílstofninn gengur inn á miðin í ætisgöngu hlýtur það að hafa áhrif á lífríkið. Eitt af því sem menn hafa verið að geta sér til um sem ástæðu fyrir hruni humarstofnsins er einmitt að makríll hafi étið upp humarlirfur þegar þær klöktust út og urðu sviflægar á sama tíma og makríll var hér við land í ætisleit. Það verður þess vegna mjög fróðlegt að sjá hvort einhverjar breytingar verði í nýliðun humars nú þegar makríll virðist hættur að ganga inn á miðin.“

Fiskifréttir.is