Undanfarið hafa margir íbúar í Eyjum fengið skilaboð í gegnum Rakning c-19 appið um mögulega útsetningu fyrir Covid-19 smiti. Í ljósi þessa langar okkur á heilsugæslunni í Vestmannaeyjum að koma eftirfarandi á framfæri.

Fyrst ber að nefna að Rakning c-19 appið er á vegum almannavarna og Embættis landlæknis og góðar upplýsingar er að finna inn á covid.is síðunni um virkni þess. Þetta er tiltölulega nýtt tæki og ekki mikil reynsla komin á notkun þess.

Eins og þekkt er þá eru smit í samfélaginu um allt land og margir utan sóttkvíar að greinast. Það þarf því ekki að koma á óvart að smitaðir einstaklingar séu á ferðinni í samfélaginu og þeir síðan að greinast, t.d. eftir að einkenni koma upp. Ef sá smitaði er með rakningarappið virkt og gefur leyfi getur smitrakningarteymið látið senda skilaboð í alla síma, sem eru með appið virkt og hafa komist í ákveðna nálægð við síma hins smitaða á ákveðnu tímabili, um mögulega útsetningu fyrir Covid-19 .

Við höfum fundið fyrir því í fyrirspurnum og sýnatökum hjá okkur síðustu dagana að einstaklingar hafa verið að fá svona skilaboð og mörgum er eðlilega brugðið. Þeir einstaklingar sem fá þessi skilaboð eru þó ekki formlega skipaðir í sóttkví. Þeim er samt ráðlagt að fara sérstaklega varlega dagana á eftir, forðast að hitta viðkvæma hópa og aldraða, passa sérstaklega upp á persónulegar sóttvarnir og fara í sýnatöku ef einkenni koma upp. Ef viðkomandi telur sig mögulega hafa verið útsettan fyrir smiti er hægt að skrá sig í svokallaða smitgát gegnum appið til að fá strikamerki til að koma í sýnatöku sjö dögum frá útsetningu . Við mælum ekki með að einkennalaust fólk mæti fyrr í sýnatöku þar sem neikvætt próf of snemma getur gefið falskt öryggi.

Sýnatökur almennt:
Við mælum ekki með að einkennalaust fólk sem ekki hefur verið útsett fyrir Covid-19 mæti í einkennasýnatökur, enda ekki verið að skima almennt í samfélaginu. Hvergi er líklegra að vera í nálægð við smitaða einstaklinga en í röðinni á leið í sýnatöku. Ef einstaklingar þurfa að komast í sýnatökur af öðrum ástæðum en einkennum skal hafa samband við Heilsugæsluna. Ferðamenn sem þurfa vottorð er bent á travel.covid.is þar sem fram koma allar upplýsingar um vottorðasýnatökur.