Samkvæmt áreiðanlegum heimildum Eyjafrétta sagði Andrés Þorsteinn Sigurðsson starfi sínu sem yfirhafsögumaður Vestmannaeyjahafnar lausu um síðustu mánaðarmót. Hann mun stefna að því að flytja frá Vestmannaeyjum til að taka að sér sambærilegt starf annarsstaðar. Þessar sömu heimildir herma að í bréfi sem hann hefur sent Framkvæmda- og hafnarráði beri hann bæjarstjóra Vestmannaeyjabæjar, Írisi Róbertsdóttur, þungum sökum vegna samskipta og eineltis í sinn garð.

Andrés hefur unnið gott starf hjá Vestmannaeyjahöfn, eða í um 15 ár, en var þar áður skipstjóri. Andrés hefur einnig verið óhræddur við að tjá sig um málefni Vestmannaeyja og þá sérstaklega hvað varðar samgöngumál en hann var meðal annars fulltrúi Vestmannaeyjabæjar í smíðanefnd nýs Herjólfs, sem unnið var að á síðasta kjörtímabili.

Ástæða uppsagnar er sögð, samkvæmt uppsagnarbréfi, vera hugsanlegt einelti af hálfu bæjarstjóra sem einkennist til að mynda af endurteknum samskiptavanda, útilokun, upplýsingaskorti og óréttmætri gagnrýni. Eftir því sem Eyjafréttir komast næst hefur enn ekki verið boðaður fundur í Framkvæmda- og hafnarráði og bréf Andrésar því ekki hlotið formlega umfjöllun.

Eyjafréttir munu fjalla frekar um málið þegar fram vindur og óska eftir afriti af því bréfi sem Andrés sendi nefndinni þegar gögn verða gerð opinber. Eftir heimildum Eyjafrétta mun Andrés hafa óskað sérstaklega eftir því að Vestmannaeyjabær taki bréfið og efnisleg atriði þess til umfjöllunar á vettvangi ráðsins.