Í gær mættu Eyjastelpur Keflavík á Hásteinsvelli. Keflavík bar sigur úr bítum með teimur mörkum gegn einu. Um var að ræða leik í 14. umferð Pepsi-Max deildar kvenna. ÍBV vann fyrri leik liðanna í Keflavík 2-1 í 5. umferð.

á 11. mínútu leiksins kom sending á Natöshu Anasi inn fyrir vörn ÍBV og skoraði hún fyrsta mark leiksins fyrir Keflavík. Á 49. mínútu skoraði svo Aníta Lind Daníelsdóttir annað mark leiksins fyrir Keflavík úr hornspyrnu. Clara Sigurðardóttir hjá ÍBV komst svo í dauðafærði á 53. mínútu og reyndi að minnka muninn en án árangurs. Boltinn rataði síðar á Þóru Björg Stefánsdóttir sem skoraði loks eina mark ÍBV í leiknum á 70. mínútu. Leikurinn endaði svo 1-2 fyrir Keflavík.

Bar það til tíðinda í leiknum að Liana Hindis leikmaður ÍBV hlaut gult spjald fyrir atvik sem átti sér stað á vellinum undir lok leiksins. Þar sést hún slá frá sér er hún og leikmaður Keflavíkur elta boltann á hliðarlínunni. Atvikið náðist á myndband og hefur hlotið athygli á samfélagsmiðlinum Twitter.

Næsti leikur ÍBV er gegn Selfossi á JÁVERK-vellinum í 15. umferð deildarinnar þann 13. ágúst nk. ÍBV situr í 7. sæti deildarinnar með 16 stig. Efstar eru Valur með 38 stig en þær hafa spilað einum leik meira.