Laugardaginn 21. ágúst 2021 er viðmiðunardagur kjörskrár vegna Alþingiskosninganna sem fram fara þann 25. september næstkomandi. Samkvæmt a lið 1. mgr. 23 gr. laga um kosningar til Alþingis er viðmiðunardagur kjörskrárstofns 5 vikum fyrir kjördag sem þýðir að viðmiðunardagur að þessu sinni er 21. ágúst 2021.

Kosningarétt við Alþingiskosningar þann 25. September nk. eiga allir íslenskir ríkisborgarar sem náð hafa 18 ára aldri á kjördag og sem skráðir eru með lögheimili hér á landi. Íslenskir ríkisborgarar sem náð hafa 18 ára aldri og flutt hafa erlendis eiga kosningarétt í 8 ár frá flutningnum. Eftir þann tíma þurfa þessir aðilar að sækja um að vera teknir á kjörskrá hjá Þjóðskrá. Ef viðkomandi er ekki með gilda umsókn, 8 ár eru liðin frá flutningi og engin umsókn barst fyrir 1. desember 2020 er viðkomandi ekki á kjörskrá.

Kjósendur eru á kjörskrá í því sveitarfélagi þar sem þeir eiga skráð lögheimili á viðmiðunardegi, þ.e. fimm vikum fyrir kjördag, þann 21. ágúst 2021. Flutningur lögheimilis eftir þann tíma breytir ekki skráningu á kjörskrá.

Stefnt er að því að opnað verði fyrir uppflettingu í kjörskrárstofni á “Hvar á ég að kjósa” þriðjudaginn 24. ágúst nk.