Fyrirliði ÍBV í fótbolta, Eiður Aron Sigurbjörnsson hefur hlotið mikið lof fyrir frammistöðu sína á vellinum í sumar og á stóran þátt í gengi liðsins. Í síðustu viku hlaut Eiður einnig lof fyrir viðbrögð sín í toppslagnum gegn Kórdrengjum þegar leikmaður Kórdrengja hlaut höfuðáverka eftir samstuð og lá rotaður eftir. Andartaki síðar var Eiður kominn að honum, athugar með tungu hans og velti honum á hliðina.

Eiður segir í samtali við fotbolti.net að það sé grafalvarlegt að lenda í höfuðmeiðslum og að þetta hafi verið náttúruleg viðbrögð hjá honum að bregðast svona við.

Leikmaður Kórdrengja þakkar Eið fyrir í samtali við sama miðil: „Já, ég sendi risa hrós á Eið fyrir hans viðbrögð á staðnum en hann hafði líka samband við mig seinna um kvöldið til að athuga stöðuna á mér. Það er virkilega virðingarvert og kann ég honum bestu þakkir fyrir það.”

Fyrirliði til fyrirmyndar!