Stigin hafa verið 174 Græn skref á árinu af starfsstöðvum ríkisstofnana. Umhverfisstofnun greindi frá. Hvert skref inniheldur í kringum 30 til 40 aðgerðir svo að baki þessum árangri liggja á fimmta þúsund umhverfisvænar aðgerðir, bæði stórar og smáar.

Ýmis umbótamál eru þar að baki svo sem eins og að bæta aðstöðu fyrir hjólreiðafólk, auka framboð máltíða í mötuneyti með lágt kolefnisfótspor, ruslaplokk og færa sig yfir í umhverfisvænni pappír svo eitthvað sé nefnt.

45 stofnanir eru á lista yfir þá sem tekið hafa Græn skref á árinu. Þar á meðal er Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum, en menntaskólar eru áberandi á listanum auk helstu stofnana ríkisins eins og ráðuneyti og sýslumenn. Þar má einnig nefna Fiskistofu, Samgöngustofu, Íslandspóst, Jafnréttisstofu, Skógræktina og Skattinn.

Í tilkynningunni stendur:
Nánar um Græn skref

Alls hafa um 400 starfsstöðvar hjá ríkinu allt í kringum landið tekið Græn skref. Verkefnið er fyrir ríkisstofnanir sem vilja draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum af starfsemi sinni og efla umhverfisvitund starfsmanna. Með þátttöku gefst stofnunum tækifæri á að innleiða öflugt umhverfisstarf með kerfisbundnum hætti undir handleiðslu sérfræðinga Umhverfisstofnunar.

Aðgerðum Grænna skrefa er skipt í 7 flokka sem ná yfir helstu umhverfisþætti í venjulegum skrifstofurekstri: Miðlun og stjórnun, innkaup, samgöngur, rafmagn og húshitum, flokkun og minni sóun, viðburðir og fundir, eldhús og kaffistofur. Skref 1-4 innihalda aðgerðir í öllum þessum flokkum en fimmta skrefið tekur á þeim aðgerðum sem þarf að innleiða til að byggja upp umhverfisstjórnunarkerfi hjá viðkomandi stofnun.