Eyjafréttir greindu frá því fyrr í þessum mánuði að Andrés Þorsteinn Sigurðsson yfirhafnsögumaður hafi sagt starfi sínu hjá Vestmannaeyjahöfn lausu. Ástæðan var meint einelti og framkoma bæjarstjóra í hans garð sem hann tilgreindi sérstaklega í uppsagnarbréfi. Andrés greindi svo nánar frá málinu í grein sem hann ritaði og sendi til birtingar á vef Eyjafrétta. Í uppsagnarbréfinu á Andrés meðal annars að hafa óskað sérstaklega eftir því að Vestmannaeyjabær taki bréf sitt og efnisleg atriði þess til umfjöllunar á vettvangi Framkvæmda- og hafnarráðs.

Enn hefur þó ekki verið boðaður fundur í Framkvæmda- og hafnarráði og bréf sem Andrés Þ. Sigurðsson sendi ráðinu hefur því ekki hlotið formlega umfjöllun. Eyjafréttir hafa gert ítrekaðar tilraunir til þess að fá svör við eftirfarandi spurningum hjá formanni Framkvæmda- og hafnaráðs, Kristínu Hartmannsdóttur, en án árangurs.

a. Hefur nefndinni borist erindi frá hafnsögumanni þar sem kvartað er undan framkomu bæjarstjóra?
b. Hefur nefndin verið kölluð saman vegna þessa máls?
c. Hefur borist beiðni frá nefndarmönnum um að nefndin komi saman vegna þessa?
d. Hefur þú sem formaður nefndar hjá Vestmannaeyjabæ áður heyrt af því að fundið hafi verið að framkomu bæjarstjóra gagnvart embættismönnum svo sem að gerð hafi verið athugasemd við það hvernig starfsmenn sveitarfélagsins tjá sig á samfélagsmiðlum?
e. Má ekki telja líklegt að nefndin líti þetta alvarlegum augum og tryggt verði að málið verði skoðað á faglegan máta án aðkomu bæjarstjóra?

Samkvæmt heimildum Eyjafrétta eru tæpar tvær vikur síðan nefndarmenn Sjálfstæðisflokksins óskuðu eftir því að ráðið kæmi saman vegna málsins en við því hefur ekki orðið. Ráðið fundar að jafnaði einu sinni í mánuði. Eyjafréttir munu fjalla frekar um málið þegar fram vindur og óska eftir afriti af því bréfi sem Andrés sendi nefndinni þegar gögn verða gerð opinber.