Í gær birti Tryggvi Sigurðsson myndir af togaranum Bergi VE-44 í slippnum í Reykjavík. Myndirnar birti Tryggvi á síðu sinni “Vélbátar Vestmannaeyinga í yfir 100 ár” á Facebook.

Myndirnar sýna togarann Berg í miðri málun þar sem skrokkur hans fær nú græna kápu en báturinn hefur áður borið rauðan lit. Ástæða þess er að sjávarútvegsfyrirtækið Vísir í Grindavík festi nefnilega kaup á bátnum nú í sumar. Báturinn var í eigu útgerðarinnar Bergs, dótturfélags Bergs-Hugins sem síðar er dótturfélag Síldarvinnslunnar á Neskaupstað.

Bergur mun því héðan í frá bera einkennislit Vísis sem er dökkgrænn með brúnum gluggum í brúnni. Við kaupin var tilkynnt að báturinn muni hljóta nafnið Jóhanna Gísladóttir en samnefndur línubátur Vísis er á leið í brotajárn.

Jóhanna Gísladóttir, sem smíðuð var 1969, hefur jafnan gengið undir viðurnefninu Drottningin en ekki er víst hvort að hin nýja Jóhanna erfi það gælunafn.

Bergur Jóhanna Gísladóttir
Mynd: Tryggvi Sigurðsson
Bergur Jóhanna Gísladóttir
Mynd: Tryggvi Sigurðsson