Fimmtudagsmorguninn 12. ágúst sl. hélt ísfisktogarinn Bergey VE til veiða frá Vestmannaeyjum frá þessu er greint á heimasíðu Síldarvinnslunnar. Áður en haldið var í veiðiferðina fór öll áhöfnin í Covid-hraðpróf og reyndust allir neikvæðir. Snemma á mánudagsmorguninn fór einn úr áhöfninni að hósta og finna fyrir lasleika. Var hann þegar tekinn í hraðpróf um borð og reyndist hann þá jákvæður. Viðkomandi var strax settur í einangrun í klefa sínum og haldið rakleiðis til hafnar í Vestmannaeyjum, en þangað var reyndar ekki nema rúmlega klukkustundar sigling. Þegar í land var komið fór öll áhöfnin í sýnatöku og varð niðurstaðan sú að einungis þessi eini reyndist jákvæður, allir aðrir í áhöfninni voru neikvæðir. Að lokinni sýnatökunni fór öll áhöfnin í sóttkví í vikutíma og að henni lokinni í sýnatöku enn og aftur. Sú sýnataka leiddi í ljós neikvæða niðurstöðu hjá öllum. Bergey hélt á ný til veiða að lokinni sóttkví áhafnarinnar þriðjudaginn 24. ágúst eftir átta daga stopp í landi.

Arnar Richardsson, rekstrarstjóri Bergs-Hugins, segir að þarna hafi skjót viðbrögð um borð skipt miklu máli. „Það voru þessi skjótu viðbrögð sem komu í veg fyrir að aðrir úr áhöfninni smituðust. Í því sambandi er rétt að leggja áherslu á mikilvægi þessara hraðprófa. Það er ómetanlegt að hafa slík próf um borð og geta gengið úr skugga um hvort um smit sé að ræða þegar veikindaeinkenni koma í ljós úti á sjó,“ segir Arnar.