Umfjöllun landsmiðla um meint einelti gagnvart starfsmanni Vestmannaeyjabæjar hefur eðli málsins samkvæmt vakið mikla athygli og umræðu og valdið undirritaðri áhyggjum. Engar upplýsingar um málið hafa verið veittar undirritaðri þrátt fyrir beiðni um slíkt við formann bæjarráðs og hefur upplýsingagjöf því takmarkast við umfjöllun fjölmiðla þar sem m.a. er haft eftir bæjarstjóra að þær alvarlegu ásakanir sem settar séu fram séu ,,tilhæfulausar og órökstuddar með öllu”, tengir þær við ráðningamál og segir ennfremur ,,En í kjölfar þess að hann fékk ekki starfið virðist hann hafa ákveðið að ráðast að mér persónulega með órökstuddum dylgjum sem ég vísa algjörlega á bug“. Hvernig sem málinu er farið er í það minnsta ábyrgðarleysi af æðsta embættismanni Vestmannaeyjabæjar að tjá sig með jafn afgerandi hætti í fjölmiðlinum Mannlíf um málefni einstaka starfsmanns og brýtur gegn reglugerð um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. Þar kemur skýrt fram í 6. grein að ,,Við meðferð máls skal atvinnurekandi sýna varfærni og nærgætni í aðgerðum sínum með virðingu og einkahagi hlutaðeigandi starfsmanna í huga, meðal annars með því að veita ekki óviðkomandi aðilum upplýsingar um mál og tryggja að utanaðkomandi aðilar sem kunna að koma að meðferð máls geri slíkt hið sama.”

Vellíðan starfsmanna þarf að vera í fyrirrúmi
Vellíðan og öryggi starfsmanna er lykilatriði til að auka afköst, bæta starfsanda, minnka líkur á kulnun og draga úr kostnaðarsamri starfsmannaveltu. Atvinnurekendur geta gripið til ýmissa aðgerða til að auka starfsánægju hjá vinnuafli sínu með ýmsum umbunum á borð við sveigjanlegri vinnutíma, hrósi, stöðuhækkunum, aukinni ábyrgð í starfi osfrv.

Ekki síður mikilvægt atriði er að tryggja eftir fremsta megni að upplifun starfsmanna af vinnustað sínum sé ekki neikvæð, þar líðist ekki ofbeldi af neinum toga og staðið sé vörð um almenn mannréttindi starfsmanna, á borð við tjáningafrelsi.

Mikilvægt að bregðast hratt og vel við
Það er eðlileg krafa að þegar starfsmaður upplifir sig sem þolanda að tekið sé skjótt á málinu, af auðmýkt og með virðingu fyrir hlutaðeigandi aðilum en ekki með sleggjudómum af meintum geranda. Enda segir í 7. grein fyrrgreindrar reglugerðar að ,,Atvinnurekandi skal bregðast við eins fljótt og kostur er þegar honum berst kvörtun eða ábending um einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni eða ofbeldi á vinnustað sem og verði hann var við slíka hegðun eða aðstæður á vinnustaðnum sem líkur eru á að leitt geti til slíkrar hegðunar verði ekki gripið til aðgerða. Skal atvinnurekandi þá meta aðstæður í samvinnu við vinnu­verndar­fulltrúa vinnustaðarins, eftir því sem við á, og utanaðkomandi aðila ef með þarf.” Það hlýtur að vera vilji allra hlutaðeigandi aðila að fá niðurstöðu og sátt í málið sem fyrst, ekki síst til að draga megi lærdóm af því til að koma megi í veg fyrir að aðrir starfsmenn sveitarfélagsins þurfi að búa við slíka upplifun.

Víðtækara vandamál?
Það sem kemur svo fram í aðsendri grein meints þolanda er ekki síður alvarlegt þegar látið er í veðri vaka að hugsanlega hafi aðrir starfsmenn hrakist úr störfum sínum hjá sveitarfélaginu á undanförnum árum.  Fyrr á kjörtímabilinu flutti undirrituð bókun þar sem meirihluti H- og E- lista var minntur á að virða skoðanafrelsi starfsmanna Vestmannaeyjabæjar þar sem starfsmenn höfðu upplifað skammir frá yfirmönnum fyrir að setja fram skoðanir sínar m.a. á samfélagsmiðlum en tjáningafrelsi opinberra starfsmanna er tryggt með 41. grein stjórnsýslulaga. Til að setja hlutina í samhengi  þá voru starfsmenn Vestmannaeyjabæjar yfir 500 árið 2020 og því ansi stór hluti samfélagsins sem ekki mætti tjá sig ef tjáningafrelsi starfsmanna væri ógnað. Í þessu ljósi telur undirrituð mikilvægt að farið verði í heildræna og hlutlausa athugun á vinnustaðamenningu á skrifstofum sveitarfélagsins til að tryggja vellíðan og öryggi starfsmanna, koma í veg fyrir að einelti eða annað form ofbeldis fái þrifist og leiða í ljós hvort ásakanir sem þessar eigi við rök að styðjast eða ekki.

Hafnað að taka málið fyrir
Ráðsmenn Sjálfstæðisflokksins hafa óskað eftir að málið verði tekið formlega fyrir hjá framkvæmda- og hafnarráði en þeirri beiðni hefur verið hafnað og hefur undirrituð ítrekað mikilvægi þess að fjallað verði með formlegum hætti um jafn alvarlegar ásakanir sem snúa m.a. að vinnuvernd starfsmanna. Það hlýtur að vera vilji meirihlutans að taka af allan vafa opinberlega um það að vellíðan og öryggi starfsmanna er forgangsmál og að vinnuvernd sé sinnt samkvæmt reglugerðum og óskað verði aðstoðar Vinnueftirlitsins hið fyrsta við málið sem væri eðlileg framvinda.

Við hljótum öll að vilja búa í samfélagi þar sem allir íbúar sama hvaða störfum þeir gegna eða hópum þeir tilheyra hafi það frelsi að mega viðra skoðanir sínar og leita réttar síns, jafnvel þó það sé ekki öllum að skapi.

Hildur Sólveig Sigurðardóttir
Bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum