Bæjarráð ræddi á fundi sínum á miðvikudag ákvörðun Icelandair um að hætta öllu áætlunarflugi til og frá Vestmannaeyjum, 31. ágúst. Ákvörðunin er vissulega mikil vonbrigði fyrir Vestmannaeyinga, en eftirspurn eftir flugi milli lands og Eyja var undir þeim væntingum sem Icelandair hafði gert ráð fyrir. Það er að mati flugfélagsins fjárhagslega ómögulegt að halda úti áætlunarflugi til Vestmannaeyja á markaðslegum forsendum. Bæjarstjóri fundaði með Vegagerðinni vegna flugsins þegar það stefndi í að hætta ætti flugi í lok september. Eftir að félagið gaf út að þeir myndu hætta mánuði fyrr hefur bæjarstjóri og formaður bæjarráðs fundað með samgönguráðherra og óskað eftir fundi með Vegagerðinni vegna málsins þar sem samgöngur til Vestmannaeyja eru á ábyrgð ríkisins.

Í niðurstöðu um málið lýsir bæjarráð vonbrigðum með að Icelandair hætti áætlunarflugi til Vestmannaeyja mánuði fyrr en áætlað var. Ef fullreynt er að fljúga á markaðslegum forsendum til Vestmannaeyja þarf að bregðast við því og því þarf að fá svör um framhaldið sem allra fyrst. Flugsamgöngur eru bæjarbúum og atvinnulífi afar mikilvægar, m.a. til að sækja heilbrigðisþjónustu sem illu heilli hefur verið skert verulega í samfélaginu og til atvinnu og því mikilvægt byggðamál, ekki síst á veturna þegar færð á vegum er slæm og siglingar erfiðari.