Kjarasamningar sjómanna hafa verið lausir um nokkurt skeið og á umliðnum mánuðum hafa viðræður átt sér stað á milli Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og stéttarfélaga sjómanna um nýja samninga. Þær viðræður hafa verið bæði gagnlegar og málefnalegar, en því miður ekki leitt til þess að aðilar hafi náð saman um nýjan samning. Í gær kusu stéttarfélög sjómanna að slíta viðræðum við SFS. Það er miður, enda hverfa hvorki verkefnið né ábyrgðin af herðum okkar sem sitjum við samningaborðið. Frá þessu er greint í nýjasta fréttabréfi SFS.

Nokkur munur er á kröfum einstakra stéttarfélaga sjómanna. SFS áætla hins vegar að ef fallist yrði á kröfurnar hlypi kostnaður vegna þeirra á milljörðum króna ár hvert. Launakostnaður er hár í fiskveiðum, en hæst fer hann í um 44% af heildartekjum. Hlutfallið er sannanlega nokkuð misjafnt á milli útgerðarflokka. Ef gengið yrði að kröfum stéttarfélaganna, má ljóst vera að mörg fyrirtæki gætu ekki staðið undir þeim og einstakir útgerðarflokkar gætu jafnvel lagst af. Slíkt þjónar hvorki hagsmunum sjómanna í heild né samfélagsins.

Laun sjómanna eru frábrugðin launum fólks á almennum vinnumarkaði. Í fiskveiðum ráðast laun sjómanna af verðmæti þess afla sem veiddur er. Þrátt fyrir að sjómenn hafi í mörgum tilvikum samið um sambærileg réttindi og gilda á almennum vinnumarkaði, þá er það ekki algilt. Í hlutaskiptakerfi í sinni tærustu mynd, er verðmæti aflans skipt á milli útgerðar og áhafnar og sjómenn hafa síðan sjálfir forræði á því að tryggja hina ýmsu hagsmuni sína, líkt og með kaupum á slysatryggingum og greiðslum í lífeyrissjóði. Íslenska hlutaskiptakerfið felur ekki í sér svo afdráttarlausa skiptingu, enda njóta íslenskir sjómenn ríkra réttinda. Sjómenn njóta til að mynda bóta vegna slysa samkvæmt skaðabótalögum, en þar er um að ræða til muna ríkari vernd en almennt þekkist. Fólk á almennum vinnumarkaði nýtur ekki svo víðtækrar verndar.

Sjómenn á Íslandi fá því bæði góð laun og víðtæk réttindi. Og þannig á það að vera. Ef litið er til myndarinnar hér að neðan, sem unnin er úr gögnum frá Hagstofu Íslands, má sjá að sjómenn hafa uppskorið ríkulega með hlutaskiptakerfinu. Því miður virðist lítill gaumur gefinn að þessu á vettvangi stéttarfélaga sjómanna.