Forsendur fjárhagsáætlunar fyrir árið 2022 voru til umræðu á fundi bæjarráðs í gær. Í forsendum fjárhagsáætlunar er lagt upp með að útsvarsprósenta verði óbreytt á milli ára eða 14,46% og að framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga verði í samræmi við áætlun sjóðsins, sem ætti að liggja fyrir áður en áætlunargerðinni lýkur. Í forsendum er hlutfall af álagningu fasteignaskatta á A flokk húsnæðis (íbúðarhúsnæði) 0,291%, á B flokk (opinberar stofnana) 1,32% og á C flokk (atvinnuhúsnæði) 1,45%.

Gerð er tillaga um að aðrar tekjur málaflokka, svo sem vegna gjaldskráa bæjarins, hækki um 2,5% í takt við spá um vísitölu neysluverðs á næsta ári. Hins vegar á eftir að taka ákvörðun um gjaldskrár er snúa að fjölskyldufólki sérstaklega, t.a.m. leikskólagjöld, skólamáltíðir og Frístund.

Stuðst verður við sérstaka launaáætlun við undirbúning fjárhagsáætlunarinnar, sem tekur mið af mannaflaþörf á stofnunum bæjarins og útreikningi á áhrifum kjarasamninga. Með því eykst nákvæmni við áætlun launa. Gert er ráð fyrir að aðrir rekstrarliðir hækki almennt um 2,5%.

Meirihluti E og H lista leggur til að hlutfall fasteignaskatts á íbúðarhúsnæði lækki á milli ára og verði 0,281% á íbúðarhúsnæði (A flokki), 1,32% á opinberar stofnanir (B flokki) og 1,45% á annað húsnæði (C flokki), þ.m.t. atvinnuhúsnæði. Með þessu móti sé komið í veg fyrir að hækkun fasteignamats auki álögur Vestmannaeyjabæjar á íbúa og fyrirtæki.

Tillagan var samþykkt samhljóða.