Núna svona rétt fyrir kosningar hefur dregið úr samgöngum til Eyja. Ekkert flug og miðdegisferð Herjólfs tekin af. Vetraráætlun komin á þegar sumarið er varla búið a.m.k. að mati þeirra sem halda hér úti ferðaþjónustu og verslun og þjónustu. Algjört klúður að mínu mati svona rétt fyrir kosningar með samgönguráðherrann í kjördæminu.

Mokað undir lélega íslenska byggðastefnu
Þetta er gott dæmi um það hve veikar hugmyndir okkar Íslendinga um byggðastefnu geta verið. Við erum oft búin að segja nei á rekstrarlegum forsendum áður en við skoðum hinn raunverulega ábata sem þarf að hugsa til lengri tíma. Skref niður á við sem þetta gerir stökkið til baka mun erfiðara og ekki í neinu samræmi við það hvernig verkefnið um Herjólf var lagt upp í upphafi.

Trump-fylki og samgöngur
Eitt sinn fór ég til Norður Karólínu í Ameríkuhreppi og út á eyju eina sem liggur meðfram fylkinu sem nefnist Pine Knoll Shores. Tvær brýr á sitthvorum enda eyjarinnar liggja út á hana sem og að ferja, sem tekur 35 mínútur að sigla á milli, gengur til hennar frá henni miðri yfir á meginlandið, sem sagt þrjár leiðir. Þarna búa um 7000 manns, mest eldri borgarar og lágtekjufólk við atvinnulíf sem einkennist af ferðaþjónustu og vertíðabundnum fiskveiðum. Hluti íbúa veiðir sér svo til matar þann hluta á ári sem litla vinnu er að fá. Veður verða oft slæm á fellibyljatímabilinu og því mikilvægt eins og hér að samgöngur séu góðar til að tryggja aukið öryggi íbúa. Greidd eru veggjöld óháð leið en þau voru ódýrari fyrir íbúana á svæðinu og þá sem þurftu að sækja svæðið oft.

Þarna höfðu stjórnvöld tekið þá ákvörðun að tryggja aðgengið að svæðinu til að opna möguleikann á vexti samfélagsins þrátt fyrir að hlutfall skatttekna á hvern íbúa væru lægri þarna en víða annarstaðar í fylkinu. Ekki aðeins með einni leið heldur nokkrum. Ekki var lokað yfir nóttina líkt og hér en héðan kemst enginn nema á tuðru milli 23:00 á kvöldin og 7:00 á morgnana.

Trúin flytur fjöll
Loksins þegar við höfum eitthvað um samgöngurnar okkar að segja verðum við að sýna það að við höfum trú á samfélaginu okkar. Að við höfum þá trú að ferðaþjónustan og verslun og þjónusta heimamanna geti haft tekjur á fleiri tímum en aðeins yfir hásumarið.  Ef við sem búum hér höfum ekki trú á samfélaginu okkar óháð hvaða tími árs er getum við ekki ætlast til að þeir sem styrkja samfélagið okkar með menntun og þekkingu velji það að búa hér. Það að fækka ferðum sendir þeim sem gætu hugsað sér að búa neikvæð skilaboð. Öflugt og drífandi fólk gerir kröfur um metnaðarfulla og trausta innviði og ef því er mætt vex samfélagið. Flóknara er það nú ekki.

Við þetta má bæta að tvær stærstu matvörukeðjur landsins hafa hér sett upp útibú sín, nánast á sömu torfunni, í beinni samkeppni og það fyrir löngu þrátt fyrir að við séum aðeins ríflega 4300 talsins. Það hlýtur að segja eitthvað þegar báðar þessar keðjur veðja á Vestmannaeyjar og það sem þær hafa upp á að bjóða.

Hvenær ætlum við að veðja á samfélagið okkar?

Gísli Stefánsson