„Það hefur verið bæði fróðlegt og ánægjulegt að fara yfir sögu Hilmars Rósmundssonar og Theodórs Ólafssonar sem gerðu út Sæbjörgu VE 56.  Þeir náðu ásamt áhöfn ótrúlegum árangri á litlum bát þegar þeir á árunum 1967 og 1968 voru aflahæstir á vertíð í Vestmannaeyjum. Slógu svo öllum við og voru hæstir yfir landið allt 1969. Aflinn 1654 tonn á vetrarvertíð á 67 tonna bát. Geri aðrir betur,“ segir Ómar Garðarsson sem ásamt Atla Rúnari Halldórssyni hefur unnið að dagskránni, Heiður sé sjógörpum. Hún er nú helguð þeim Hilmari og Theodór og verður á laugardaginn kl. 13:00 á Bryggjunni í Sagnheimum Safnahúsi.