Forsendur fjárhagsáætlunar fyrir árið 2022 voru til umræðu á fundi bæjarráðs í vikunni sem leið. Fulltrúi D lista bar þá upp eftirfarandi tillögu: “Undirrituð leggur til að fallið verði frá ákvörðun meirihluta H og E lista um fjölgun bæjarfulltrúa í hagræðingarskyni en óhjákvæmilegt er að launakostnaður, stærsti einstaki útgjaldaliður sveitarfélagsins vaxi enn frekar á komandi árum vegna þess.” Tillagan var felld með tveimur atkvæðum E og H lista gegn einu atkvæði D lista

Næsta bæjarstjórn ákveður laun
Í bókun frá fulltrúum E og H lista um tillöguna kemur fram að “Undirrituð geta ekki samþykkt tillöguna enda er ekki gert ráð fyrir hærri heildarkostnaði við fjölgun bæjarfulltrúa. Næsta Bæjarstjórn ákveður sjálf laun kjörinna fulltrúa og getur þ.a.l. ákveðið að fara ekki umfram þær fjárheimildir sem lagt er til í fjárhagsáætlun sem eru þær sömu og eru fyrir sjö fulltrúa.”

Bæjarráð samþykkti forsendur fjárhagsáætlunarinnar samhljóða og þakkaði upplýsingarnar. Bæjarráð leggur áherslu á að við gerð fjárhagsáætlunar verði reynt að komast hjá því að auka álögur á bæjarbúa eins og kostur er, án þess að þjónusta skerðist.

Áætlun á að taka mið af stöðunni eins og hún er
Fulltrúi D lista lagði þá fram þessa bókun. “Ég samþykki forsendurnar en minni á að ákvörðun meirihlutans um fjölgun bæjarfulltrúa kemur til framkvæmda um mitt næsta ár. Ég geri því athugasemd við að ekki hafi verið gert ráð fyrir útgjaldaaukningu vegna þessarar ákvörðunar í forsendum fjárhagsáætlunar. Engin ákvörðun hefur verið tekin um lækkun launa bæjarfulltrúa, áætlanir sveitarfélagsins mega ekki taka mið af ákvörðunum sem hugsanlega verða teknar í framtíðinni heldur af raunstöðunni eins og hún er í dag, annað væri óábyrgt.”