Það er alþekkt, þegar fólk lendir í vandræðum með að verja umdeildar ákvarðanir, að gripið er til þess ráðs að gera aukaatriðin að aðalatriðum. Það er gert til að reyna að dreifa umræðunni og athyglinni frá kjarna málsins. Stundum kallað smjörklípuaðferðin. Það hefur aðeins örlað á því, eftir skrif mín um Vetraropnun á þjóðveginum til Eyja í boði stjórnar Herjólfs ohf og meirihluta bæjarstjórnar, að „Smjörklípan“ hafi verið reynd til þess að draga athyglina frá kjarna málsins. Skertri þjónustu með vetraropnun á þjóðveginum til Eyja.

9 eða 10 mánuðir breyta engu um alvarleika málsins
Það skal fúslega viðurkennt að eitthvað skripluðu fingur mínir á lyklaborðinu, með þeim afleiðingum að 9 mánuðir urðu að 10 í skrifum mínum í síðustu viku. Nokkuð augljós villa, sem flestir gátu áttað sig á án sérstakra reiknikúnsta. Villa sem hafði engin áhrif á kjarna málsins, þá staðreynd að þjóðvegurinn til Eyja er með sérstaka vetraropnun frá 1. september til loka maí. Eini fjölfarni þjóðvegurinn með slíka vetraropnun meginpart ársins, eða heila 9 mánuði. Það er mergur málsins og það sem umræðan á að snúast um.

Ritvillan mun léttvægari en ákvörðunarvillan
Það er mannlegt að gera mistök og sjálfsögð auðmýkt að viðurkenna þau og biðjast afsökunar á þeim, sem ég geri hér fúslega. Það hefur hins vegar engin áhrif á merg málsins, gagnrýnina og alvarleika þess að skerða þjónustuna. Ritvilla mín hefur engin áhrif á þjónustu við íbúa og atvinnurekendur í Eyjum eða aðra þá sem um þjóðveginn fara. Ákvörðun stjórnenda Herjólfs ohf., um að 1. september sé kominn vetur í Eyjum sem vari næstu 9. mánuði og því sé skollin á vetraropnun á þjóðveginum til Eyja, hefur hins vegar mikil áhrif á samfélagið og gefur vægast sagt slæm og verulega neikvæð skilaboð til almennings.

Yfirsást einhverjum ákvæðið um lágmarksferðatíðni í september?
Mér var bent á að til að réttlæta ferðafækkun hafi verið dregið fram í umræðunni, fylgiskjal úr samningi sem gerður var í upphafi við Vegagerðina þar sem kveðið er á um lágmaksferðatíðni af hálfu Vegagerðarinnar. Ekkert í þeim samningi kvað á um að ferðir mættu ekki vera fleiri og sundurliðun sú sem Vegagerðin setti fram um ferðir var byggð á gamldags hugsunarhætti þar á bæ um mismunandi áætlun eftir árstíðum, enda var þeim sem sátu umrædda samningafundi af hálfu Vegagerðar það ljóst að ætlun stjórnenda Herjólfs ohf. á þeim tíma var aldrei að bjóða upp á áætlun sem byggði á þessari lágmarkskröfu sem Vegagerðin setti fram. Til að undirstika það og taka af allan vafa þá er rétt að minna á að á fundi stjórnar Herjólfs 26. október 2018 var samþykkt siglingaáætlun sem tók gildi 30. mars 2019 þar sem kveðið var á um 7 ferðir á dag allan ársins hring.

Sú áætlun var í gildi og siglt eftir henni þar til þjóðveginum til Eyja, einum þjóðvega á landinu, var nánast lokað vegna Covid 19. Í framhaldi af því var síðan tekin ákvörðun af núverandi stjórnendum Herjólfs um vetraropnun á þjóðveginum til Eyja.

Það er líka rétt að vekja athygli á, að samkvæmt áðurnefndu fylgiskjali með samningum, var þó kveðið á um af hálfu Vegagerðarinnar að í september og maí skuli sigla amk. 7 ferðir á dag föstudaga og sunnudaga.  Ætli sá hluti fylgiskjalsins hafi farið fram hjá formanni bæjarráðs og öðrum þeim sem um málið hafa fjallað? Þá lágmarks ferðatíðni er amk. ekki að finna í þeirri áætlun sem nú er siglt eftir í september!

Hafa stjórnendur Herjólfs ohf auðmýktina sem til þarf?
Það er hollt fyrir alla að reyna að greina kjarnann frá hisminu og hafa athyglina á því sem skiptir máli, í þessu tilfelli ákvörðunin um vetraropnunina á þjóðveginum. Útúrsnúningar leysa það ekki á nokkurn hátt. Stjórnendur Herjólfs ohf, væntanlega í umboði meirihluta E og H lista í bæjarstjórn, skripluðu illa er þeir tóku ákvörðun um skerta opnun á þjóðveginum til Eyja. Ég ber þá von í brjósti að stjórnendur Herjólfs ohf hafi þá auðmýkt sem þarf til að viðurkenna mistök sín og endurskoða ákvörðunina um vetraropnun á þjóðveginum til Eyja og þá í framhaldinu að biðja Eyjamenn og aðra þá sem um þjóðveginn fara afsökunnar á þessum leiðu en alvarlegu mistökum.

Grímur Gíslason