Langa fær 21 milljón úr matvælasjóði

Mynd: Langa

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur úthlutað 566,6 milljónum króna úr Matvælasjóði til 64 verkefna. Hlutverk sjóðsins er að styrkja þróun og nýsköpun við framleiðslu og vinnslu matvæla úr landbúnaðar- og sjávarafurðum. Þetta er í annað sinn sem úthlutað er úr Matvælasjóði, en í ár bárust 273 umsóknir um styrki.

Fjögur fagráð voru stjórn sjóðsins til ráðgjafar, eitt í hverjum styrkjaflokki, og skiluðu þau til stjórnar forgangsröðun verkefna eftir einkunnum ásamt umsögnum um hvert verkefni fyrir sig. Stjórn Matvælasjóðs skilaði tillögum til ráðherra hinn 3. september sl. og hefur ráðherra fallist á þær.

Meðal þeirra fyrirtækja sem fá styrk úr sjóðnum þetta árið er Langa í Vestmannaeyjum en fyrirtækið fær úthlutað 21.033.250 kr. til verkefnis sem ber heitið “Skilgreining á vatnsrofnum prótínum úr ufsa- og karfahryggjum.”

Mest lesið