Ísfisktogararnir Vestmannaey VE og Bergey VE hafa verið að veiðum austur af landinu það sem af er septembermánuði og hafa þeir landað ótt og títt í Neskaupstað frá þessu er greint á vef Síldarvinnslunnar. Bergey landaði sl. sunnudag og aftur sl. miðvikudag og Vestmannaey landaði sl. mánudag og aftur í gær. Veiðin hefur verið þokkaleg hjá skipunum og þau hafa landað þétt til að tryggja vinnsluhúsum hráefni. Að sögn Arnars Richardssonar, rekstrarstjóra Bergs-Hugins, er haustbragur yfir veiðunum og farið að bera á brælum eftir einmunatíð í allt sumar fyrir austan. Segir hann að gert sé ráð fyrir að skipin landi í Vestmannaeyjum eftir helgina.