Framkvæmdastjóra fjölskyldu og fræðslusviðs ásamt æskulýðs-, íþrótta- og tómstundafulltrúa var falið, á fundi fjölskyldu og tómstundaráðs í vikunni, að fara yfir áfangaskýrslu starfshóps Vestmannaeyjabæjar um íþróttamál með þeim aðildarfélögum sem í skýrslunni voru. Markmiðið var að fara yfir hvort einhverjar breytingar hafi orðið hjá félögunum á tímabilinu sem starfshópurinn var að störfum og frá því að skýrslan var tilbúin. Í öllum tilfellum staðfestu aðilar innihald svara sem og samtalanna sem fóru fram á milli starfshópsins og aðildarfélaganna. Aðilar ítrekuðu í flestum tilfellum þau atriði sem þeim fannst helst vanta en önnur gerðu engar athugasemdir. Tvö aðildarfélög hafa útfært hugmyndir sínar enn frekar. Eru þær hugmyndir það umfangsmiklar að rétt er að félögin fái tækifæri til að kynna þau enn frekar fyrir ráðsmönnum í fjölskyldu- og tómstundaráði.

Ráðið þakkaði framkvæmdastjóra fjölskyldu- og fræðslusviðs og æskulýðs-, íþrótta- og tómstundafulltrúa fyrir vinnuna við viðbótarskýrslu er varðar áfangaskýrslu starfshóps Vestmannaeyjabæjar um íþróttamál. Ráðið felur framkvæmdastjóra að fá forsvarsmenn þeirra tveggja félaga sem hafa óskað eftir breytingum frá áfangaskýrslu starfshópsins til þess að koma til fundar við ráðið og fara betur yfir breyttar áherslur frá þeim.