Samgöngur voru til umræðu á fundi bæjarstjórnar í vikunni sem leið. Greint var frá fundi bæjarfulltrúa með fulltrúum stjórnar og framkvæmdastjóra Herjólfs ohf. og farið var yfir stöðu félagsins. Nýr samningur og fjölgun farþega miðað við árið í fyrra gerir það að verkum að áætlanir fyrir þetta ár eru að standast. Þó er nokkuð í land að ná þeim farþegafjölda sem var 2019.

Í sameiginlegri bókun bæjarstórnar um málið kemur fram að samgöngur eru lífæð samfélagsins og mikilvægt að þær séu sem bestar. Herjólfur er þjóðvegur íbúa og er mikilvægt að hann sé opinn enda vel yfir 95% af öllum farþegaflutningum, allir bílar og stór hluti flutningar á vörum er með Herjólfi. Rekstur Herjólfs ohf. hefur verið erfiður en nú horfir vonandi til betri vegar með auknum farþegafjölda. Á þessu ári hefur reksturinn gengið samkvæmt áætlun og er unnið samkvæmt þeim samningi sem samþykktur var í desember 2020. Öllum má vera ljóst að samgöngur til Vestmannaeyja eru afar mikilvægar allt árið, bæjarstjórn leggur áfram mikla áherslu á að haldið verði áfram að bæta þjónustuna eins mikið og kostur er og í takt við þarfir samfélagsins.