Bæjarstjóri greindi á fundir bæjarstjórnar í síðustu viku frá þeirri stöðu sem upp er komin við brjóstaskimanir í Vestmannaeyjum. Þegar Krabbameinsfélagið annaðist brjóstaskimanir fóru slíkar skimanir fram í Vestmannaeyjum með reglulegu millibili. Eftir að Samhæfingarmiðstöð krabbameinsskimana tók við keflinu var ákveðið að ekki verði boðið upp á brjóstaskimanir í Vestmannaeyjum í haust og vetur. Þess í stað eru allar konur boðaðar í brjóstaskimun upp á land, með tilheyrandi raski og óhagræði fyrir konur í Vestmannaeyjum.

Í sameiginlegri bókun bæjarstjórnar kemur fram að á annað hundrað konur úr Vestmannaeyjum hafa verið boðaðar í brjóstamyndatöku/skimun á höfuðborgarsvæðið. Þessi þjónusta var í boði í Eyjum með reglulegu millibili þegar Krabbameinsfélagið sinnti þjónustunni. Samhæfingarmiðstöð krabbameinsskimana stefnir á að koma til Eyja á næsta ári, það dugar ekki til. Ferðalagið, vinnutapið og kostnaðurinn sem hlýst af þessu gerir þetta fyrirkomulag algjörlega óskiljanlegt. Það sama gildir um sónarþjónustu við óléttar konur.