Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir að til standi að veita Þjóðhátíðar í Eyjum ríkisstyrk vegna tekjutaps ÍBV en hátíðinni hefur verið frestað nú í tvö ár. Þetta kemur fram í frétt á vefnum visir.is.

Hugmyndir þess efnis voru ræddar á ríkisstjórnarfundi í morgun. „Við vorum að ræða það að við ættum eftir að koma með úrræði fyrir þá sem hugðu á stórhátíðahöld um verslunarmannahelgi. Gátu ekki gert það í fyrra og ekki í ár,“ sagði Bjarni meðal annars í samtali við fréttastofu Visies að afloknum síðasta ríkisstjórnarfundi sem haldinn verður undir merkjum ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur.

Við höfum þurft að leggja mat á það að hvaða marki úrræðin sem við höfum verið með í gildi hafa gagnast þeim aðilum og erum sérstaklega að horfa til þeirra sem hafa verið að efna til hátíðahalds til að styðja við almannaheillastarfsemi eins og íþrótta- og æskulýðsstarf. Slíka starfsemi. Og hafa orðið af verulegum tekjum sem mögulega hafa staðið undir slíkri starfsemi,“ sagði Bjarni í samtali við fréttastofu.

Ekki liggur fyrir hversu há upphæðin verður en þarna er einkum um að ræða Þjóðhátíð í Eyjum. Segir Bjarni málið komið í farveg; til standi að koma á fót sjóði sem slíkir aðilar geti sótt í þegar svo ber undir.