Vestmannaeyjar – sjávarlíftæknivettvangur Íslands

Hólmfríður, Evgenia, Hörður, Íris og Arnar.

Þriðjudaginn 21. sept. 2021 var verkefnið “Vestmannaeyjar – Sjávarlíftæknivettvangur Íslands“ ræst í Þekkingarsetri Vestmannaeyja. Verkefnið hlaut styrk til eins árs úr Lóu – nýsköpunarstyrkir fyrir landsbyggðina sem Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur umsjón með. Hlutverk Lóu – Nýsköpunarstyrkja er að styðja við nýsköpun á landsbyggðinni og því er styrkjunum úthlutað til nýsköpunarverkefna utan höfuðborgarsvæðisins.
Þekkingarsetur Vestmannaeyja – ÞSV – hefur umsjón með verkefninu en samstarfsaðilar eru sjávarútvegsfyrirtæki í Eyjum, Rannsóknaþjónusta Vm., VISKA símenntunarmiðstöð Vm., Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri, Háskólinn á Hólum, Laxá og ArcticMass.
Hólmfríður Sveinsdóttir er verkefnastjóri verkefnisins en Hólmfríður er stofnandi Protis sem er líftæknifyrirtæki sem hefur sérhæft sig í vinnslu kollagens og fiskprótína úr hliðarhráefni. Verkefnið skiptist í 3 verkþætti og hefur fyrsti verkþáttur það markmið að auka almennt vitund fólks á sjávarlíftækni. Það verður gert með því að setja á laggirnar Sjávarlíftækniskóla unga fólksins að fyrirmynd Sjávarútvegsskóla unga fólksins og Fiskeldisskóla unga fólksins. Sjávarútvegsmiðstöð Háskólans á Akureyri hefur haft umsjón með þessum skólum og er hún samstarfsaðili í þessu verkefni. Í öðrum verkþætti verður farið í stefnumótunarvinnu um hvernig innviðir, þekking og tengsl á sviði sjávarlíftækni verða efld í Vestmannaeyjum. Einnig verður farið í stefnumótunarvinnu í uppbyggingu á fræðsluferðamennsku í Eyjum sem felst í að fá vísindafólk, nemendur og kennara til að koma til Vestmannaeyja og dvelja þar í tenslum við sína fræðigrein. Í þriðja verkþættinum verða afurðir unnar með líftækniaðferðum úr hliðarhráefni fiskvinnslu. Ætlunin er að nýta fiskhryggi og gera prótín- og steinefnaríkt duft úr þeim sem nýta má í t.d. fæðubótarefni og seiðafóður.
Við tilefni af verkefnisræsinu var efnt til samkomu í Þekkingarsetri Vm. þar sem Hörður Baldvinsson, framkvæmdastjóri ÞSV bauð gesti velkomna og fór stuttlega yfir þá innviði sem eru til staðar í Setrinu og munu geta stutt við Vettvanginn.
Því næst fór Arnar Sigurmundsson, form. stjórnar ÞSV yfir helstu lykilþætti í þróun sjávarútvegs í Vestmannaeyjum 1890-2021 og taldi hann næstu skref í þróun öflugs sjávarútvegs muni m.a. felast í vinnslu verðmætra efna úr sjávarfangi með líftækniaðferðum.
Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri fór yfir forsögu verkefnisins og mikilvægi þess að efla nýsköpun og frumkvöðlastarfssemi í Vestmannaeyjum Íris lagði ríka áherslu í máli sínu á mikilvægi þess að sveitarfélög koma að frumkvöðlastarfssemi á upphafsstigum. Þar næst talaði Hólmfríður Sveinsdóttur frumkvöðull og verkefnisstjóri og greindi stuttlega frá verkefninu og þeim mikilvæga tilgangi þess sem er fyrst og fremst að efla enn frekar frumkvöðlastarfssemi, atvinnutækifæri og verðmætasköpun í Vestmannaeyjum. Í Vestmannaeyjum eru grunninnviðir eins og ÞSV, Rannsóknaþjónusta Vm og sjávarútvegsfyrirtæki sem búa yfir mikilli þekkingu á allri virðiskeðju sjávarútvegs sem mikilvægt er að tengja við háskóla, rannsóknastofnanir og þekkingarfyrirtæki og mynda þannig breiðan vettvang.
Nýr verkefnastjóri ÞSV, Evgenia Mikaelsdóttir kynnti skoðanakönnun sem hún hefur umsjón með og er í gangi í tengslum við vinnu sem á sér stað við atvinnustefnu bæjarins. Evgenía hvatti Eyjafólk til að taka þátt í þessari mikilvægu könnun sem er á vestmannaeyjar.is , heimasíðu Vm.bæjar, og hafa þannig áhrif á atvinnustefnuna. Að lokum sagði Frosti Gíslason verkefnastjóri Þekkingarsetursins frá framtíðaráformum Fab Labs í nýju húsnæði á 3ju hæð að Ægisgötu . ÞSV annast rekstur þess með samningi og fjárframlögum frá ráðuneytum nýsköpunar- og menntamála. Vestmannaeyjabær leggur til húsnæðið sem er um 150 ferm. auk sameignilegs rýmis. Fundarfólk fór í framhaldinu að skoða nýja aðstöðu Fab Lab – en starfsemi starfrænu smiðjunnar þess á nýjum stað hefst eftir nokkra daga.
Í þessu samhengi er skemmtilegt að minnast á nýúthlutaðan styrk úr Matvælasjóði til Löngu ehf. fiskþurrkunar að fjárhæð 21 milj. kr. í verkefni sem tengist sjávarlíftæknivettvangnum.
Framtíðin er því björt í nýsköpun og frumkvöðlastarfi í Vestmannaeyjum.

Mest lesið