Bæjarráð tók í vikunni sem leið fyrir erindi frá Sea Life Trust, dags. 21. september sl., þar sem fyrirtækið óskar eftir við Vestmannaeyjabæ, að fá til varðveislu og sýninga, þá safnmuni sem nú er að finna í Náttúrugripasafni Vestmannaeyja, eins og núgildandi samningur við Sea Life Trust kveður á um. Jafnframt upplýsti Kári Bjarnason bæjarráð um samtöl sem átt hafa sér stað við Safnaráð um umrædda umleitan Sea Life Trust. Til stóð að Safnaráð kæmi fyrr í þessari viku til þess að taka út húsnæði, en vegna veðurs þurfti að fresta ferðinni.

Bæjarráð samþykkti að verða við beiðni Sea Life Trust um safnmuni Náttúrugripasafns Vestmannaeyja, með því skilyrði að Safnaráð veiti samþykki fyrir sitt leyti og felur forstöðumanni og verkefnastjóra Safnahúss að ræða við alla hlutaðeigandi aðila um breytingarnar og gerð samstarfssamning. Vestmannaeyjabær mun áfram eiga safnmunina.