Í dag 30. september 2021 veitti Alþjóðahafrannsóknaráðið (ICES) ráð um veiðar á norsk-íslenskri síld, makríl og kolmunna árið 2022.

Norsk-íslensk vorgotssíld

ICES leggur til í samræmi við samþykkta aflareglu strandríkja að afli ársins 2022 verði ekki meiri en tæp 599 þúsund tonn. Ráðgjöf yfirstandandi árs var 651 þúsund tonn og er því um að ræða tæp 9% lækkun í tillögum ráðsins um afla næsta árs. Gert er ráð fyrir að stóri árgangurinn frá 2016 verði uppistaðan í veiði næsta árs en árgangar þar á eftir eru metnir litlir.

Áætlað er að heildarafli ársins 2021 verði um 881 þúsund tonn sem er 35% umfram ráðgjöf. Ekki er í gildi samkomulag milli þeirra þjóða sem stunda veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum um skiptingu aflahlutdeildar og hver þjóð því sett sér aflamark. Það hefur haft þær afleiðingar að frá árinu 2013 hafa veiðar umfram ráðgjöf ICES numið 4-42% á ári.
Upplýsingar um ráðgjöfina og forsendur hennar má nálgast hér og frekari upplýsingar verða birtar í tækniskýrslu þegar hún kemur frá ICES

Makríll

ICES leggur til, í samræmi við nýtingarstefnu sem mun leiða til hámarks afraksturs til lengri tíma litið (MSY), að afli ársins 2022 verði ekki meiri en 795 þúsund tonn. Ráðgjöf yfirstandandi árs var 852 þúsund tonn og því er um að ræða tæplega 7% lægri ráðgjöf nú. Það skýrist af minnkandi hrygningarstofni.

Áætlað er að heildarafli ársins 2021 verði tæplega 1,2 milljón tonn sem er 41% umfram ráðgjöf. Ekki er í gildi samkomulag milli þeirra þjóða sem stunda veiðar úr makrílstofninum um skiptingu aflahlutdeildar og hver þjóð settur sér aflamark, sem hefur haft þær afleiðingar að veiðar hafa verið umfram ráðgjöf ICES.

Upplýsingar um ráðgjöfina og forsendur hennar má nálgast hér í hlekk og frekari upplýsingar verða birtar í tækniskýrslu þegar hún kemur frá ICES

Kolmunni

ICES leggur til, í samræmi við langtímanýtingarstefnu, að afli ársins 2022 verði ekki meiri en tæp 753 þúsund tonn. Ráðgjöf yfirstandandi árs var 929 þúsund tonn og er því um að ræða 19% lækkun á ráðgjöf frá í fyrra. Ástæðan fyrir lækkun á aflamarki er minnkandi hrygningarstofn sökum lélegrar nýliðunar árin 2017-2019. Nýliðun fyrir árin 2020-2021 er hinsvegar metin hærri sem mun leiða til aukningar í hrygningarstofni árið 2023.

Áætlað er að heildarafli ársins 2021 verði tæplega 1,2 milljón tonn sem er 34% umfram ráðgjöf. Ekki er í gildi samkomulag milli þeirra þjóða sem stunda veiðar úr kolmunnastofninum um skiptingu aflahlutdeildar og hver þjóð settur sér aflamark, sem hefur haft þær afleiðingar að frá árinu 2014 hafa veiðar umfram ráðgjöf ICES numið 16-66% á ári.

Upplýsingar um ráðgjöfina og forsendur hennar má nálgast hér í hlekk og frekari upplýsingar verða birtar í tækniskýrslu þegar hún kemur frá ICES