„Fyrst og fremst er gleðilegt náttúrunnar vegna að Hafrannsóknastofnunin leggi til liðlega 900.000 tonna loðnukvóta á næstu vertíð og geri líka ráð fyrir sterkum stofni loðnu á vertíðinni þar næsta árs. Stóru tíðindin eru einfaldlega þau að loðnan er hvorki týnd né tröllum gefin! Því má blása í eitt skipti fyrir öll á þær kenningar að loðnubrestur undanfarin ár sé ofveiði að kenna,“ segir Sigurgeir B. Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar.

Hafró boðar sem sagt betri tíð í loðnu og það svo um munar. Heimild var að veiða alls 125.500 tonn síðastliðinn vetur og algjört veiðibann ríkti í tvö ár þar áður með tilheyrandi tekjufalli allra sem njóta góðs af gjöfulli vertíð. Framkvæmdastjóri VSV segir afleiðingarnar þær að hefðbundnir markaðir fyrir loðnuafurðir séu laskaðir og það geti tekið langan tíma að koma á eðlilegu ástandi og skapa nauðsynlegt traust á milli seljenda annars vegar og kaupenda og neytenda hins vegar.

„Ég er þeirrar skoðunar að leyfa hefði átt einhverjar veiðar á bannárunum og að leyfa líka að veiða ögn meira á síðustu vertíð til þess að draga úr áhrifum loðnubrestsins á markaðina ytra.

Verð á loðnu eftir síðustu vertíð var mjög hátt, svo hátt að kaupendum gengur illa að selja það sem þeir keyptu. Fyrirtæki sem áður notuðu loðnuhrogn hafa snúið sér að öðrum hráefnum, annað hvort vegna þess að þau hafa engin loðnuhrogn fengið eða treysta sér ekki til að borga svo hátt verð fyrir vöruna.

Sömu sögu er að segja um neytendur. Við þurfum ekki að velta fyrir okkur hvað við myndum sjálf gera í innkaupaferðum ef til dæmis verð á lambakjöti eða kjúklingum þrefaldaðist í verslunum hér!

Þetta ástand á bæði við um hefðbundna markaði loðnuafurða í Asíu og í ríkjum rússnesku mælandi þjóða og er ekki svartsýnistal af minni hálfu heldur staðreynd sem sýnir sem fyrr að eitt er að veiða en annað að framleiða og selja.

Loðnumarkaðirnir okkar eru sannarlega laskaðir og við verðum að hyggja að þeim nú þegar stór kvóti er við sjóndeildarhringinn en manneldishluti þeirra langsveltur á sama tíma.

Jákvætt er í stöðunni að umsvif í laxeldi aukast stöðugt og laxinn þarf fóður. Mjöl- og lýsisverð er hátt en aukið framboð af loðnu kann að hafa þar áhrif. Á móti kemur aukin eftirspurn í fiskeldi. Fóðurframleiðsla fyrir lax er framleiðsla á ská til manneldis.

Mesta gleðiefnið er vissulega það að framundan er mikil veiði úr tveimur gríðarsterkum árgöngum loðnu. Það mun skila sér inn í hagkerfið og verða öllum landsmönnum til góðs hvort heldur er starfsfólk til lands og sjávar, þjónustufyrirtæki, ríkissjóður eða sveitarfélög.

Sjávarútvegsfyrirtækin horfa til þess að geta byggt sig upp og fjárfest meira en ella hefði verið, sem er í þágu samfélagsins til skemmri og lengri tíma.

Ég hugsa til þess nú ef upp úr kjörkössum fyrir fáeinum sólarhringum hefði komið sigur stjórnmálaafla sem klifuðu á því fyrir kosningar að stúta fiskveiðistjórnarkerfinu og skattleggja sjávarútveginn með öllum ráðum.

Þá væri líklega efst á baugi í stjórnarmyndunarviðræðum í dag að leggja á ráðin um hvernig best og skilvirkast væri að hirða ávinning af komandi loðnuvertíð af fólki og fyrirtækjum í sjávarplássunum.

Blessunarlega höfnuðu kjósendur öllu slíku tali og áformum með afgerandi og eftirminnilegum hætti.“