Verð íslenskra sjávarafurða mælt í erlendri mynt hækkaði um 2% á öðrum fjórðungi ársins borið saman við fjórðunginn á undan. Þetta er í fyrsta skipti síðan á fyrsta fjórðungi síðasta árs sem verð hækkar milli samliggjandi fjórðunga og því fyrsta verðhækkunin eftir að faraldurinn hófst.

Þetta kom fram í nýjustu Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans.

Verð á íslenskum botnfiski er hins vegar enn töluvert lægra en það var fyrir faraldur. Það sem skýrir helst þessa verðhækkun er mikil hækkun á verði uppsjávarfisks. Hún nam 11,7% frá fjórðungnum á undan og er þetta mesta hækkunin síðan á fyrsta fjórðungi 2016 en þá hækkaði verð á uppsjávarfiski um rúmlega 20%. Verð á botnfiski hækkaði einnig milli fjórðunga en mun minna, eða 0,5%.

Þrátt fyrir þessa verðhækkun er verð sjávarafurða enn töluvert lægra en fyrir faraldur. Verðið nú á öðrum fjórðungi er 9,1% lægra en það var hæst áður en faraldurinn hófst, þ.e. á fyrsta ársfjórðungi síðasta árs. Leita þarf aftur til fyrsta fjórðungs 2019 til að finna lægra verð, en verðið í dag er 0,3% hærra en þá.

Hrina verðlækkana
Þessi verðlækkunarhrina sjávarafurða hófst um leið og heimsfaraldurinn, eða á öðrum fjórðungi síðasta árs. Þá lækkaði verðið töluvert mikið, eða um 5,2%, og má rekja þá lækkun til þeirra aðstæðna sem komu upp vegna faraldursins, s.s. þrýstings kaupenda á verðlækkanir, segir í Hagsjánni.

Lækkunin á þeim fjórðungi var sú mesta í mælingum Hagstofunnar en tölur hennar ná aftur til ársins 2010. Hækkunin nú á öðrum fjórðungi er sú fyrsta eftir faraldur þar sem bæði verð á botnfiski og uppsjávarfiski hækkar. Sé horft til tímabilsins frá fyrsta fjórðungi síðasta árs hefur þróunin verið mjög breytileg fyrir botnfisk og uppsjávarfisk. Þannig hefur uppsjávarfiskurinn hækkað um 5,5% en botnfiskurinn hefur lækkað um 11,4%, segir þar ennfremur.