Yfirfélagsráðgjafi lagði til á fundi Fjölskyldu- og tómstundaráðs í síðustu viku að Vestmannaeyjabær taki þátt í og verði samstarfsaðili Soroptimistaklúbbs Suðurlands að verkefninu Sigurhæðir. Markmið verkefnisins er að bjóða sunnlenskum stúlkum og konum öruggan vettvang og aðstoð fagfólks til að vinna úr áföllum sem eiga rætur í kynbundnu ofbeldi, hvort sem það er tilfinningalegt, andlegt, líkamlegt eða kynferðislegt og vinna með því að valdeflingu þeirra. Sveitarfélög á Suðurlandi s.s. Árborg, sveitarfélög í Árnesþingi og Rangárvalla- og V-Skaftafellssýslu og sveitarfélagið Hornarfjörður auk Lögreglan á Suðurlandi, Heilbrigðisstofnun Suðurlands, Kvennaráðgjöfin, Mannréttindaskrifstofa Íslands og Markþjálfafélag Íslands eiga aðild að Sigurhæðum. Að auki er ríkulegt samstarf við Stígamót, Kvennaathvarfið, Drekaslóð og Bjarkarhlíð. Sigurhæðir sem staðsett er á Selfossi er fyrsta samhæfða þjónusta við þolendur kynbundins ofbeldis í sunnlensku nærsamfélagi. Mikilvægt er að fyrir liggi viljayfirlýsing um samstarf frá Vestmannaeyjabæ og að úrræði Sigurhæða verði auglýst og kynnt. Úrræðið sem er endurgjaldslaust mun því standa Vestmannaeyjingum til boða.

Ráðið samþykkti að verða samstarfsaðili Soroptimistaklúbbs Suðurlands í verkefninu Sigurhæðir.