Tekið var fyrir á fundi bæjarráðs í gær erindi frá Björgunarfélagi Vestmannaeyja þar sem félagið óskar eftir fjárstuðningi Vestmannaeyjabæjar vegna kaupa á nýju björgunarskipi.

Um er að ræða fyrsta skipið af þremur sem fór í útboðsferli hjá Ríkiskaupum. Ríkissjóður Íslands mun fjármagna helminginn af kaupverðinu og Björgunarfélag Vestmannaeyja og Slysavarnafélagið Landsbjörg hinn helminginn.

Með tilkomu þessa nýja björgunarskips styrkist þjónusta til muna og öryggi eykst, þar sem fólksflutningar sjóleiðina og komur skemmtiferðaskipa á svæðið, hefur aukist til muna síðustu ár.

Í tengslum við undirbúning fjárhagsáætlunar fyrir næsta ár óskar Björgunarfélagið eftir aðstoð við fjármögnun á skipinu með langtímasamningi til næstu ára.

Bæjarráð fól bæjarstjóra að skipuleggja fund með bæjarfulltrúum, fulltrúum framkvæmda- og hafnarráðs, sem einnig fengu erindið, og fulltrúum Björgunarfélags Vestmannaeyja til þess að fjalla um erindi Björgunarfélagsins.

Nýtt Björgunarskip – Bæjarráð Vestmannaeyja.pdf