Davíð Egilsson, yfirlæknir og svæðislæknir sóttvarna hjá HSU Vestmannaeyjum segir stöðuna á Covid-19 í Eyjum hafa verið ágæta undanfarið. “Það hafa verið að detta inn eitt og eitt smit og mest voru á sama tíma 13 skráðir í einangrun í síðustu viku. Í dag 11. október eru tíu skráðir í einangrun. Flest smitanna tengjast ferðum erlendis og við höfum dæmi um smit sem ná framhjá þeim aðgerðum sem eru í gangi á landamærunum, þ.e. að smitin greindust eftir fyrstu tvo sólarhringana eftir heimkomu.  Sem betur fer hafa þessi smit þó ekki náð miklu flugi og fá smit orðið innanbæjar. Að sama skapi hafa ekki stórir hópar þurft í sóttkví, ef frá er talið ein leikskóladeild sem nú er laus úr sóttkví án þess að frekari smit hafi greinst.  Það má samt lítið útaf bregða og því vil ég hvetja alla að fara áfram varlega, og sérstaklega þeir sem eru að koma erlendis frá að fara varlega fyrstu dagana eftir heimkomu og koma í sýnatöku ef einkenni koma upp. Við sjáum líka að það er talsvert um umgangspestir hjá börnum þessa dagana, bæði magakveisur og kvef, sem getur flækt málin. Við höfum sem betur fer ekki þurft að fá mörg börn í covid sýnatöku,  en það þarf þó að meta í hverju tilviki fyrir sig.”