Erna ætlar ekki með Birgi í Sjálf­stæðis­flokkinn

0
Erna ætlar ekki með Birgi í Sjálf­stæðis­flokkinn
Erna, Guðni, Heiðbrá og Birgir

Erna Bjarna­dóttir, vara­þing­maður Birgis Þórarins­sonar, sem ný­verið fór úr Mið­flokknum í Sjálf­stæðis­flokkinn sagði Í bítinu á Bylgjunni í morgun að hún ætli ekki að skipta yfir í Sjálf­stæðis­flokkinn eins og Birgir.

„Ég hef ekki skráð mig í Sjálf­stæðis­flokkinn og er ekki á leiðinni þangað,“ sagði Erna.

Hún sagði að hún væri „bara vara­þing­maður“ og að hún ætlaði að sinna á­fram þeim verk­efnum sem hún sinnti áður en hún tók sæti á lista flokksins, en það eru sem dæmi að stýra vinnu í hópnum Að­för að heilsu kvenna. Þau mál hafi fallið vel að stefnu flokksins og þess vegna hafi hún tekið sæti á lista.

„Ég hef ekki svo sem meira um það að segja. Ég er þá kannski, eins og þú segir, frægust fyrir að vera vara­þing­maður sem aldrei komst á þing,“ sagði Erna og hló.

Hún sagðist ekki ó­sátt við á­kvörðun Birgis og að hann yrði að vera sáttur við sínar á­kvarðanir og sína sann­færingu. Hvað varðar tíma­setningu brott­hvarfsins sagðist hún ekkert hafa við um­ræðuna að bæta.

Erna sagði að hún væri enn vara­þing­maður Birgis, hún gæti ekki verið neitt annað, en að hún ætlaði sér að vera á­fram í Mið­flokknum.

„Ég er ekkert að fara í neinn annan flokk,“ sagði Erna.

Hún sagði að auð­vitað væri sér brugðið við á­kvörðun Birgis eftir að hafa varið miklum tíma með honum í kosninga­bar­áttunni og ferðast með honum um kjör­dæmið en að það væri mikil­vægt fyrir fólk að fylgja sinni innri rödd, sannfæringu og pólitísku sýn, það væri Birgir að gera og það ætlaði hún að gera.

Hægt er að hlusta á við­talið hér.