„Við ætlum að tvöfalda frístundastyrkinn, lækka aldurstakmörk og gera umsóknarferlið einfaldara og notendavænna“.

Þetta litla loforð gaf Eyjalistinn út í stefnuskrá sinni í aðdraganda síðustu bæjarstjórnarkosninga. Frístundastyrkurinn hefur alltaf verið fólkinu á bak við Eyjalistann hjartans mál enda var málið upphaflega lagt fram af þáverandi bæjarfulltrúum listans, þeim Jórunni Einarsdóttur og Stefáni Jónassyni.

Með frístundastyrknum styður Vestmannaeyjabær við hvers konar tómstunda- og íþróttastarf barna. Styrkurinn var í upphafi kjörtímabils 25 þúsund krónur á hvert barn en verður á næsta ári 50 þúsund krónur. Útgjöld fjölskyldna með börn í íþróttum eða öðrum tómstundum lækka sem þessu nemur og er það mikið hagsmunamál, sérstaklega fyrir efnaminni fjölskyldur.

Sýnt hefur verið fram á að öflugt íþrótta- og tómstundastarf styrki líkamlegan og andlegan þroska barna, ýti undir sjálfstæði þeirra og styrki sjálfsmynd. Þá er hann einnig mikilvægur forvarnarskyni, sérstaklega hjá eldri aldurshópunum.

Ekki síðri breyting sem gerð hefur verið á ferlinu í kringum frístundastyrkinn er að einfalda allt umsóknarferlið. Í stað þess að leggja út fyrir æfingagjöldum og sækja síðar endurgreiðslu til bæjarins er styrkurinn í dag einfaldlega greiddur út strax þegar barnið er skráð í viðkomandi íþróttir eða tómstundir. Þetta skiptir líka miklu máli.

Stefna okkar hjá Eyjalistanum er að gera samfélagið okkar betra fyrir barnafjölskyldur. Frístundastyrkurinn er bara einn liður í því, eitt lítið loforð af fjölmörgum sem okkur hefur tekist að standa við.

Við ætlum að halda því áfram!

 

Njáll Ragnarsson