Þetta tilkynnti Svandís Svavarsdóttir að loknum ríkisstjórnarfundi í ráðherrabústaðnum í morgun. Minnisblað Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis var þar meðal annars til umræðu. Lagði hann í minnisblaðinu fram þrjá möguleika varðandi framhaldið; 1. að viðhafa áfram sömu takmarkanir, 2. að slaka á í skrefum og 3. að aflétta öllum takmörkunum.

Í minnisblaði, sem forsætisráðherra og heilbrigðisráðherra sendu sóttvarnalækni áður en hann sendi frá sér minnisblað sitt, bentu ráðherrarnir á að stjórnvöld á hinum Norðurlöndunum hefðu rökstutt ákvörðun sína um að hætta öllum aðgerðum með þeim rökum að ólíklegt væri að faraldur kórónuveirunnar í vel bólusettu samfélagi ógnaði því í heild.

Svandís segist gera ráð fyrir að öllu óbreyttu og ef allt gengur vel að um fulla afléttingu verði að ræða eftir fjórar vikur.