Leika tvo leiki í Grikklandi um helgina

0
Leika tvo leiki í Grikklandi um helgina
Ljósmynd: Þóra Sif Kristinsdóttir
Stelpurnar í meistaraflokki kvenna í handbolta eru mættar til Thessaloniki í Grikklandi og framundan eru tveir leikir gegn PAOK í EHF European Cup en liðið seldi heimaleikjaréttin í hagræðingarskini. ÍBV hefur ekki sent kvennalið til keppni í Evrópukeppni síðan 2015. Einn núverandi leikmaður liðsins tók þátt í því verkefni en það var Erla Rós Sigmarsdóttir markvörður.
Vilmar Þór Bjarnason framkvæmdastjóri handknattleiskdeildar ÍBV ferðaðist út með liðinu en hann segir ferðalagið hafa gengið vel. “Ferðalagið hófst um miðnætti á fimmtudag og við tók 3,5 tíma flug til Frankfurt. Þar biðum við í nokkra tíma og vorum svo lent í Thessaloniki um klukkan 16:00 á staðartíma. Við höfum fengið mjög fínar viðtökur og hótelið er fínt, engir íburðir en alveg nóg fyrir okkur.”
Vilmar segir þau hafa takmarkaðar upplýsingar um andstæðingana en mikill hugur sé í hópnum. “Við vitum ekki mikið um andstæðinn en þjálfararnir höfðu einn leik sem búið er að grandskoða en við rennum nokkuð blint inn í þetta. Staðan er góð á hópnum. Við erum með 15 leikmenn sem allar eru leikfærar og tilbúnar í slaginn. Tilhlökkun er mikil enda fáar sem hafa áður tekið þátt í Evrópu-verkefni.”

Báðir leikirnir fara fram kl.13:00 á íslenskum tíma og verða þeir leiknir á laugardag og sunnudag. Leikirnir verða í beinni útsendingu á youtube og má nálgast hlekk hér að neðan. Athygli er einnig vakin á samfélagsmiðlum ÍBV en Þóra Sif Kristinsdóttir er virk á miðlunum og hægt er að fylgjast með stelpunum á facebook og Instagram.

Hérna eru hlekkir á leikina 2:
Laugardagur : https://youtu.be/oGTk9Da8Uo4
Sunnudagur : https://youtu.be/UePNHswUiHI