“Staðan á Covid í Eyjum er svipuð og síðustu vikur. Það bætast við stöku smit og aðrir hafa losnað úr einangrun,” sagði Davíð Egilsson, Yfirlæknir á Heilsugæslu HSU í Vestmannaeyjum. “Fjöldi einstaklinga í einangrun er enn undir 10 og engin stökk í smittölum upp eða niður. Eins og smittölurnar hafa verið fyrir landið undanfarið er ljóst að við þurfum að vera á tánum. Við hvetjum einstaklinga með einkenni til að fara í sýnatöku. Það hefur borið á því að fólk hefur komið beint á heilsugæsluna með einkenni sem bent geta til Covid 19. Við hittum og skoðum alla sem á því þurfa að halda, en ef veikindin eru ekki alvarleg viljum við gjarnan að fólk hafi farið í sýnatöku áður en það kemur til okkar í skoðun. Ef veikindin eru þess eðlis að viðkomandi þarf skoðun samdægurs þá gerum við ráðstafanir til að minnka líkur á smitum til starfsfólks og annarra skjólstæðinga.”

Davíð brýnir skilaboð Þórólfs frá því fyrir helgi: “Nú gildir að sýna samstöðu og viðhafa þær sóttvarnir sem við vitum að skila árangri. Forðumst hópamyndanir, virðum eins metra nándarreglu, notum andlitsgrímu ef ekki er hægt að viðhafa eins metra nánd við ótengda aðila og/eða í illa loftræstum rýmum, þvoum og sprittum hendur, höldum okkur til hlés ef við finnum fyrir einkennum sem bent geta til COVID-19 og mætum í PCR próf. Einnig er mikilvægt að viðhafa góða smitgát þar til niðurstaða úr PCR prófi liggur fyrir.”