Útflutningsverðmæti loðnuafurða er komið í tæpan 21 milljarð króna á fyrstu 9 mánuðum ársins. Þar af nemur útflutningsverðmæti loðnuhrogna 12,3 milljörðum og hefur aldrei verið meira, að því er kemur fram í greiningu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.

Þar segir að hrognin nema 59% af heildarútflutningsverðmæti loðnuafurða á tímabilinu. Útflutningur á heilfrystri loðnu í landi, hefur skilað um þriðjungi útflutningstekna það sem af er ári, eða um 6,6 milljörðum króna sem einnig er met. Útflutningsverðmæti af sjófrystri loðnu nemur svo einum milljarði króna og fiskimjöl rétt rúmlega 800 milljónum.

Asíumarkaður allsráðandi

Fjölbraut við Ármúla
Jóla Fylkir 2021

Á fyrstu níu mánuðum ársins hafa verið fluttar út loðnuafurðir til Asíu fyrir um 13,8 milljarða króna, sem er met. Það er um 66% af útflutningsverðmætum loðnuafurða á tímabilinu. Þar af fóru loðnuafurðir til Kína fyrir 4,3 milljarða króna og til Japans fyrir 4,2 milljarða. Önnur stór Asíulönd í þessu sambandi eru Taíland, Suður Kórea og Taívan. Sjá má að stærsta viðskiptaland Íslendinga með loðnuafurðir, Noregur, kemst varla á blað í ár. Það kemur heim og saman við hversu lítið fór í bræðslu en Norðmenn eru stærstu kaupendur Íslendinga á fiskimjöli og lýsi enda ein stærsta fiskeldisþjóð heims, segir í fréttinni.