Ljósleiðaramál í Vestmannaeyjum voru til umræðu í vikunni. Lögð voru fram drög að gjaldskrá fyrir notkun ljósleiðara í dreifbýli sem bæjarráð þarf að samþykkja. Jafnframt ræddi bæjarráð stofnun einkahlutafélags um ljósleiðaravæðingu í þéttbýli og þau hagnýtu atriði sem þurfa að liggja fyrir við stofnsetningu slíks félags, þ.e. að skipa stjórn félagsins, framkvæmdastjóra, ákveða heiti þess, skipa endurskoðanda, ákveða hlutafé og tilgang félagsins. Bæjarráð samþykkir fyrirliggjandi drög að gjaldskrá fyrir ljósleiðara í dreifbýli.

Jafnframt samþykkir bæjarráð stofnsetningu nýs einkahlutafélags um ljósleiðaravæðingu í þéttbýli og að hlutafé félagsins verði 500.000 kr. Þriggja manna stjórn og varastjórn félagsins verður skipuð bæjarfulltrúum á næstu dögum. Tilgangur félagsins er að leggja ljósleiðara að hverju heimili í Vestmannaeyjum í mögulegu samstarfi við einkaaðila sem sýnt hafa áhuga á slíku. Komi til þess verður skoðað að fjölga fulltrúum í stjórn til samræmis. Bæjarráð felur framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs að ljúka við stofnun félagsins í samráði við framkvæmdastjóra og umverfis- og framkvæmdasviðs og deildarstjóra tölvudeildar, í samræmi við umræður í bæjarráði.