Framkvæmdastjóri fjölskyldu- og fræðslusviðs kynnti á fundi fjölskyldu- og tómstundaráðs, innleiðingu á lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna og stöðu mála hjá Vestmannaeyjabæ. Umrædd lög taka gildi 1. janúar nk. og ná til þjónustu sem veitt er á vettvangi ríkis og sveitarfélaga m.a. innan skólakerfisins, heilbrigðiskerfisins og félagsþjónustu sveitarfélaga, auk verkefna lögreglu. Áherslan verður á snemmtækan stuðning, afnám hindrana við aðgang að þjónustu og aukið samtal milli þjónustukerfa. Vestmannaeyjabær er í ágætum málum varðandi innleiðingu á umræddum lögum þar sem unnið hefur verið í anda þeirra frá árinu 2006. Áherslan hefur verið á snemmtækan stuðning, samnýtingu starfsmanna milli stoða, skapa breiðan þekkingargrunn í þjónustu, stytta boðleiðir og samstarf bæði innan og utan þjónustukerfis sveitarfélagsins. Á næstu mánuðum verður unnið með innleiðingu laganna m.a. kynningu og fræðslu, þróun framtíðarsýnar, skerpt á verkferlum o.fl.