Ísfélag Vestmannaeyja 120 ára

0
Ísfélag Vestmannaeyja 120 ára
Ljósmynd frá Valdísi Óskarsdóttur

Ísfélag Vestmannaeyja hf. var stofnað 1. desem­ber 1901 og fagnar 120 ára afmæli í dag. Félagið er elsta starfandi hlutafélag landsins. Í tilefni afmælisins verður gefið út veglegt rit sem dreift verður í öll hús og fyrirtæki næstu daga, bæði hér í Eyjum og á Þórshöfn. Ritið er 140 síður og fjallar um sögu félagsins í myndum aðallega. Þemað var fólkið í fyrirtækinu. Ritið er í senn fróðleg og áhugaverð heimild, enda er saga þess samofin sögu Vestmannaeyja og sjávarútvegs í landinu frá byrjun 20. aldar. Í ritinu eru yfir 750 myndir og mjög margar þeirra hafa aldrei verið birtar annars staðar. Ritnefnd skipa þeir Guðmundur Jóhann Árnason, Sæþór Vídó Þorbjarnarson og Örvar Guðni Arnarson.

 

Ritnefnd 120 ára afmælisrits Ísfélagsins. Guðmundur Jóhann Árnason, Sæþór Vídó Þorbjarnarson og Örvar Guðni Arnarson.

Síld og spil
Það er ekki það eina sem Ísfélagið ætlar að bjóða bæjarbúum uppá í tilefni tímamótanna en lagt var í jólasíld í nóvember og ætlar félagið að bjóða bæjarbúum öllum, á meðan birgðir endast, að koma í portið hjá fiskvinnslunni við Strandveg og þiggja jólasíld þann 4. desember á milli kl. 12 og 14. Auk þess mun Ísfélagið gefa spil og boli fyrir krakka og áhugasama gesti. Ísfélagið ætlar einnig í tilefni afmælisins að veita sérstaka styrki til ýmissa félagasamtaka í Vestmannaeyjum og Þórshöfn.