Í áætluninnni er gert ráð fyrir jákvæðri rekstrarafkoma samstæðunnar að fjárhæð 235,8 m.kr. sem er um 6,6% af skatttekjum.

Áætlaðar tekjur á árinu 2022 eru 7.093 m.kr. og hækka um 437 m.kr. frá áætlun 2021. Tekjur eru varlega áætlaðar og ekki gert ráð fyrir að áætlaðar skatttekjur ársins 2022 verði hærri en raunverulegar skatttekjur þessa árs.

Rekstrarútgjöld eru áætluð 6.970 m.kr. á árinu 2022. Sem fyrr eru fræðslu- og uppeldismál stærsti einstaki málaflokkurinn í áætluninni, en aukin áhersla hefur verið á lögð á að efla fræsðlu- og uppeldismál eins og undanfarin ár. Áfram verður gætt aðhalds í rekstri sveitarfélagsins og hagrætt þar sem því verður við komið, en jafnframt stuðla að því að þjónusta við bæjarbúa verði eins og best verður á kosið.

Álagningarprósenta útsvars verður óbreytt á næsta ári eða 14,46%. Fasteignaskattur íbúðarhúsnæðis lækkar úr 0,291% í 0,281%. Fasteignaskattur á fyrirtæki lækkar úr 1,55% í 1,45%. Um er að ræða lækkun álagningarprósentu fasteignaskatts á íbúðarhúsnæði þriðja árið í röð og atvinnuhúsnæði annað árið í röð.

Gert er ráð fyrir 943,5 m.kr. til framkvæmda á næsta ári. Þar af vega þyngst framkvæmdir við nýbyggingu við Hamarsskóla, endurbætur á Ráðhúsi Vestmannaeyja, fráveituframkvæmdir, búningsklefar í Íþróttamiðstöð, flóðlýsing og gervigras á Hásteinsvelli.

Meðal annarra áhersluverkefna má nefna áframhaldandi heilsueflingu eldri borgara (Janusarverkefnið), uppbyggingu tölvu- og upplýsingatæknimála hjá GRV, átak í ferðamálum, gerð gönguleiða og skipulagningu nýrrar íbúabyggðar við Löngulág.

Gjaldskrár fyrir ákveðna þjónustu Vestmannaeyjabæjar hækki ekki milli ára, þ.e.a.s. leikskóla, matarkostnaður fyrir börn í grunn- og leikskólum, dagvistargjöld, Frístund og matarkostnaður eldri borgara.

Aukið fjármagn sett í rekstur leikskóla til tryggja leikskólapláss barna frá 12  mánaða aldri.

Í áætluninni er gert ráð fyrir hækkun frístundastyrks um 15.000 kr. Verður frístundastyrkur að fjárhæð 50.000 kr. í boði fyrir hvert barn á aldrinum 2-18 ára.

Fjárhagsstaða Vestmannaeyjabæjar er sterk. Skuldir eru lágar og langt undir viðmiðunarmörkum sveitarstjórnarlaga. Það eru í raun fá eða nokkur sveitarfélög sem geta státað af álíka góðri skuldastöðu. Engar lántökur eru áætlaðar, enda allar framkvæmdir fjármagnaðar með handbæru fé.

Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri, sagði m.a. í framsögu sinni í gær:

„Að öllu samanlögðu er ákaflega bjart framundan í rekstri Vestmannaeyjabæjar og raunar í öllu samfélaginu okkar. Við sjáum líka þessa bjartsýni raungerast út um allan bæ í fjárfestingum og uppbyggingu á vegum fyrirtækja og einstaklinga. Tækifærin eru mörg, meðal annars í frumkvöðla- og nýsköpunarstarfsemi og sókn í menntamálum og umhverfismálum.“

 

Vestmannaeyjum 3. desember 2021